Stilla útgerð, sem er minnihlutaeigandi í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, hefur farið aftur fram á það við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að hún tilnefni rannsóknarmenn til að rannsaka tiltekna þætti í starfsemi Vinnslustöðvarinnar og meðferð eigin fjár fyrirtækisins í tengslum við samruna félagsins við Ufsaberg-útgerð. Beiðnin byggir á 97. grein hlutafélagalaga sem segir til um að tíu prósent hluthafa geti farið fram á tilnefningu slíkra rannsóknarmanna.
Þetta er í ekki í fyrsta sinn sem Stilla útgerð fer fram á tilnefningu rannsóknarmanna. Það gerði félagið m.a. líka í fyrrasumar „með vísan í þau réttindi sem minnihluta hluthafa eru tryggð í hlutafélagalögum, að ráðherra skipi rannsóknarmenn til þess að skoða viðskipti meirihluta hluthafa Vinnslustöðvarinnar og eigenda Ufsabergs útgerðar. Nú er þeirrar niðurstöðu ráðuneytisins beðið“.
Erindinu var þá hafnað með bréfi sem barst 19. apríl 2016, tíu mánuðum eftir að beiðnin var send til ráðuneytisins. Ráðuneytið hafnaði því að verða við beiðninni vegna þess að héraðsdómur Suðurlands hafði komist að þeirri niðurstöðu að tvær ákvarðanir meirihluta hluthafa í Vinnslustöðinni ætti að ógilda. Ákvarðanirnar snérust annars vegar um samruna við útgerðarfélagið Ufsaberg og hins vegar um aukið hlutafé Vinnslustöðvarinnar. Hæstiréttur snéri hins vegar þeirri niðurstöðu í júní síðastliðnum og því var beiðnin um rannsóknarmennina lögð aftur fram.
Töldu ákvarðanir valda fyrirtækinu tjóni
Stilla á ríflega 30 prósent hlut í Vinnslustöðinni og hafa átök staðið yfir á milli eigenda félagsins og hóps Vestmannaeyinga, sem á tæplega 70 prósent hlut í fyrirtækinu, í áraráðir. Vinnslustöðin er á meðal fimm stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins.
Vinnslustöðin keypti upphaflega hluti í útgerðarfélaginu Ufsabergi á árunum 2008 og 2011 gegn vilja Stillu sem fór með málið fyrir dómstóla. Í mars 2013 ógilti Hæstiréttur samruna félaganna. Í kjölfarið var ný samrunaáætlun samþykkt á hluthafafundi 8. október 2014.
Eigendur Stillu, bræðurnir Guðmundur (kenndur við Brim) og Hjálmar Kristjánssynir, töldu að Vinnslustöðin væri allt of lágt metin í viðskiptunum og að ákvarðanirnar hefðu ekki verið teknar með hagsmuni fyrirtækisins í huga og væru þess eðlis að þær yllu því tjóni. Þeir töldu ákvarðanirnar hafa verið teknar til að tryggja tryggari yfirráð meirihlutaeigenda yfir Vinnslustöðinni og fóru því á ný með málið fyrir dómstóla, unnu það í héraði en töpuðu í Hæstarétti.
Því hafa eigendur Stillu ákveðið að láta reyna aftur á hvort ráðuneytið taki í mál að tilnefna rannsakendur til að rannsaka tiltekna þætti í rekstri Vinnslustöðvarinnar.