Halla Tómasdóttir, sem varð í öðru sæti í nýafstöðnum forsetakosningum með 27,9 prósent atkvæða, hefur ekki hug á því að fara í þingframboð. Frá þessu greinir hún á Facebook-síðu sinni í dag. Vefmiðillinn Eyjan birti í gær frétt þar sem fullyrt var, samkvæmt öruggum heimildum miðilsins, að hin nýstofnaði stjórnmálaflokkur Viðreisn væri að reyna að fá Höllu til að taka við forystu í flokknum og verða forsætisráðherraefni hans.
Halla neitar þessu alfarið í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Þar fullvissar hún þá sem lesa að hún hyggi hvorki „á valdarán né framboð. Eina ákvörðunin sem ég er að reyna að taka núna er hvort ég eigi að fara í bláu eða svörtu rennibrautina í Aqualandia. Er ykkur þó þakklát fyrir hvatninguna!“
Í frétt Eyjunnar um framboðsmál Viðreisnar var einnig fullyrt að til umræðu hefði verið að Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, yrði í framboði fyrir flokkinn í Suðurkjördæmi. Páll greindi frá því í viðtali við DV um helgina að hann væri að íhuga framboð og að stuðningsmenn tveggja flokka hefðu sett sig í samband við hann vegna þessa. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði við Vísi fyrr í dag að hann hefði hvorki rætt við Höllu né Pál um framboð fyrir Viðreisn.