Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að hún hafi staðið í slagsmálum við Sjálfstæðisflokknum allt kjörtímabilið um framlög til velferðarmála. Áhersla flokksins hefur frekar verið á að lækka skatta, meðal annars skatta hinna efnamestu, og á að lækka skuldir ríkisins í stað þess að auka framlög til velferðarmála. Þetta kom fram í fréttum RÚV.
Eygló fagnar því að Sjálfstæðismenn hafi á undanförnum dögum talað um aukin framlög til velferðarmála, og vísar þar í viðtal við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, í Morgunblaðinu um helgina þar sem hann sagði að heilbrigðismál og menntun verði í forgrunni hjá Sjálfstæðisflokknum verði hann við völd á næsta kjörtímabili.
Í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna álagningar opinberra gjalda á einstaklinga árið 2016, sem birt var í lok júní, kom fram að íslenskir einstaklingar höfðu samtals 34,8 milljarða króna í tekjur vegna arðgreiðslna í fyrra. Ekki liggur fyrir á hversu marga eintaklinga þessi tala skiptist en hún hækkaði um rúma fimm milljarða, eða 18 prósent, á milli ára. Tekjur einstaklinga af arði hafa aukist mjög hratt á undanförnum árum. Alls námu þær 16,7 milljörðum króna árið 2012 og hafa rúmlega tvöfaldast síðan þá. Nú er svo komið að tekjur einstaklinga vegna arðgreiðslna voru stærsti einstaki liður fjármagnstekna ríkisins vegna ársins 2015.
Á sama tíma lækka almennar vaxtabætur sem skuldsettir íbúðaeigendur fá greiddar vegna vaxtagjalda íbúðalána sinna, um 25,7 prósent á milli ára og þeim fjölskyldum sem fá þær bætur greiddur fækkar um 21,3 prósent. Ástæða þessa er sögð betri eignarstaða heimila landsins. Þá lækka heildargreiðslur barnabóta úr tíu milljörðum króna í 9,3 milljarða króna.