Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segist ekki sjá neitt sem ætti að koma í veg fyrir að kosið verði seint í október. Þetta kom fram í viðtali RÚV við Bjarna, þegar hann var á leið á ríkisráðsfund á Bessastöðum.
„Þegar við endurnýjuðum samstarf flokkanna urðu breytingar í ríkisstjórninni og við boðuðum á sama tíma að við ætluðum að ljúka ákveðnum verkefnum og ganga svo til kosninga. Ég sé ekki neitt hafa breyst í þeim efnum og sé í sjálfu sér ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að við kjósum seint í október, sem er dagsetning sem nefnd hefur verið oft í þessu sambandi,“ sagði Bjarni. Hann segir að það sé mikilvægt að ekki sé mikill hringlandaháttur með kosningar, og ákveða verði kjördag sem fyrst.
Þegar hann var spurður hvort það væri enginn efi í hans huga um að kosið verði í haust sagði Bjarni: „Ég veit ekki hversu oft ég á að svara þessari spurningu þannig að menn heyri það sem ég er að segja. Þetta er bara svona: Þetta stjórnarsamstarf var endurnýjað á þessum forsendum og það hafa engar forsendur breyst.“
Þetta gengur þvert á það sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur sagt um kosningarnar. Hann hefur sagt ótímabært að ákveða kjördag og vill að ekki sé kosið fyrr en í vor.
Bjarni segir þetta sjónarmið Sigmundar Davíðs ekkert nýtt. „Það má alveg segja að það séu gild rök fyrir því að ríkisstjórnin eigi að starfa út kjörtímabilið. En það komu upp aðstæður og við brugðumst við þeim með þessum hætti. Það hefur ekkert breyst í neinum forsendum hvað það snertir.“