Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, ætlar ekki að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðismanna sem framundan eru vegna komandi þingkosninga. Í fréttatilkynningu sem hann birtir á heimasíðu sinni segir að hann hafi fengið mikla hvatningu til að bjóða sig fram, og að það sé mikill heiður. „Eftir að hafa vegið og metið stöðuna með mínu nánasta samstarfsfólki, fjölskyldu og stuðningsmönnum hef ég því tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á mér til forystu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi nú síðsumars heldur einbeita mér áfram að því að ljúka þeim verkefnum sem ég er ábyrgur fyrir í Vestmannaeyjum, þar sem hjartað slær. Ég ítreka að ég er afar þakklátur fyrir þann mikla stuðning og velvilja sem ég hef fundið fyrir.“
Fyrr í þessum mánuði var greint frá http://kjarninn.is/frettir/2016-07-18-sjalfstaedismenn-vilja-ad-ellidi-leidi-i-stad-ragnheidar-elinar/könnun sem stuðningsmenn Elliða létu Maskínu gera fyrir sig á meðal sjálfstæðismanna. Í niðurstöðum hennar kom fram að 61 prósent þeirra sem spurðir voru vildu frekar Elliða en Ragnheiði Elínu Árnadóttur til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi í komandi kosningum og að 67,5 prósent sögðust líklegri til að kjósa flokkinn með Elliða í brúnni en Ragnheiði Elínu.