Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir ríkisstjórnina komna á endastöð. Í færslu á Facebook skrifar Katrín að það sé erfitt að sjá hvernig ríkisstjórn sem ekki ráði við „jafn einfalda ákvörðun og að ákveða kjördag“ ætli að klára fjölda flókinna mála, sem sum hver séu umdeild á milli stjórnarflokkanna.
„Best væri að ríkisstjórnin viðurkenndi það sem allir sjá: Hún er komin á endastöð.“
Ákveða verður kjördag bráðum ef halda á kosningar í október eins og rætt hefur verið. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og annar forystumanna ríkisstjórnarinnar, sagði í gær að hann sæi ekkert því til fyrirstöðu að kosið verði seint í október. Hann sagði jafnframt mikilvægt að ekki sé mikill hringlandaháttur með kosningar og ákveða verði kjördag sem fyrst.