Rætt hefur verið um það í þingflokki Framsóknarflokksins að leggja fram frumvarp um verðtrygginguna þegar þing kemur saman og „leyfa þinginu að ræða það“. Þetta segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Silja Dögg var gestur í Vikulokunum á Rás 1 í morgun þar sem þetta kom fram. Hún sagði að hún væri þeirrar skoðunar að það ætti að leyfa þinginu að ræða um afnám verðtryggingar og að hún teldi að það væri stuðningur við slíkt frumvarp í stjórnarandstöðuflokkunum. Þetta hefði verið rætt í þingflokki Framsóknarflokksins og „það eru fleiri en ég sem eru á þessari skoðun,“ sagði hún. Þegar hún var spurð að því hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði stoppað málið á þessu kjörtímabili sagði hún: „Já, augljóslega. Það vita það allir.“
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, var einnig gestur þáttarins og benti á að ef Framsóknarflokkurinn myndi leggja slíkt frumvarp fram án atbeina Sjálfstæðisflokksins yrði slíkt frumvarp ekki lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Það yrði þingmannafrumvarp og „þá væri það alveg nýtt landslag“ í íslenskum stjórnmálum, að flokkur í ríkisstjórn gerði slíkt. „Þá myndu nú einhverjir segja að þetta sé þá búið,“ sagði Svandís og átti við ríkisstjórnarsamstarfið milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Silja Dögg sagði að Framsóknarflokkurinn væri tilbúinn í kosningar rétt eins og aðrir flokkar. Hún sagði engu að síður að það væri hennar mat að það yrði að halda flokksþing þar sem formannskjör fari fram, fyrir kosningar. Panamaskjölin hefðu skaðað Sigmund Davíð og verið „mjög erfitt mál“.
Þegar hún var spurð að því hvort hún myndi styðja Sigmund Davíð til áframhaldandi formennsku í flokknum svaraði hún: „Ég hef ekki gert það upp við mig.“ Hún sagði að henni þætti Sigurður Ingi Jóhannsson hafa staðið sig vel sem forsætisráðherra, en einnig að horfa þyrfti til forystu Sigmundar Davíðs heilt yfir. „Það eru mjög margir framsóknarmenn sem eru hrifnir af Sigmundi DAvíð og því sem hann hefur gert,“ sagði hún og nefndi meðal annars leiðréttingarmál og haftamál.