Ef einkasjúkrahúsið í Mosfellsbæ verður að veruleika getur það verið veruleg ógn við heilbrigðiskerfið á Íslandi. Það mun einnig geta stefnt jöfnuði í heilbrigðiskerfinu í voða. Það ber því að stíga mjög varlega til jarðar í málinu. Þetta segja þrír yfirlæknar á hjartadeild Landspítalans í grein í Morgunblaðinu í dag.
Læknarnir, Davíð O. Arnar, Ingibjörg Guðmundsdóttir og Karl Andersen, gera ýmsar athugasemdir við fyrirætlanir um einkasjúkrahúsið í grein sinni. Mjög margt sé óljóst um starfsemina sem og eignarhaldið á sjúkrahúsinu. „Eins vekur umfang hugmyndanna furðu,“ skrifa læknarnir, sem bend á að forsvarsmenn verkefnisins hafi áður kynnt miklu minni áform. „Því er ljóst að þetta verkefni er nú af allt annarri stærðargráðu og vekur það upp fjölmargar spurningar til viðbótar um raunverulegar fyrirætlanir þeirra sem að því standa.“
Áætlað sé að um þúsund starfsmenn verði á þessum spítala, en óljóst sé hvaðan þeir eigi að koma. „Komið hefur fram að ekki verði sérstaklega falast eftir íslensku starfsfólki en erfitt að sjá að hægt sé að reka stórst sjúkrahús hérlendis allt árið um kring, með eingöngu aðfluttu erlendu starfsfólki. Ljóst er að það er útilokað að manna tvö stór sjúkrahús á suðvesturhorninu með þeim fjölda heilbrigðisstarfsmanna sem nú eru í boði hérlendis.“
Íslenskt heilbrigðiskerfi er einfaldlega ekki aflögufært um einn einasta starfsmann, eins og staðan er í dag, segja læknarnir. „Við teljum því að svona umfangsmikil ný starfsemi gæti orðið veruleg ógn við heilbrigðiskerfi sem er á viðkvæmum stað í endurreisnarferli.“
Stefnir mikilvægum jöfnuði í hættu
Læknarnir fjalla einnig um þær fyrirætlanir að Íslendingar, sem vilja og hafa efni á því að greiða fyrir, eigi að geta sótt sér þjónustu á þessum nýja spítala. „Þetta skapar auðvitað möguleika á að þeir efnameiri muni sitja við annað borð en aðrir. Það stefnir þeim jöfnuði sem er svo mikilvægur í heilbrigðiskerfinu okkar í voða. Það væri gjörbreyting á íslenskri heilbrigðisþjónustu og stangast illilega á við þá hugmyndafræði sem er undirstaðan að velferðarkerfinu okkar.“
Þá vekur það athygli læknanna að sótt verður um ríkisstyrki til framkvæmdanna vegna umfangsins, eins og Kjarninn hefur greint frá að gert verði. Undirbúningur fyrir byggingu nýs Landspítala sé í fullum gangi og fyrirhugað að framkvæmdir hefjist fljótlega. „Hvaða áhrif hefur það á fyrirhugaðar framkvæmdir á LSH og jafnvel á efnahagslegan stöðugleika hérlendis ef ráðist er í tvær stórar spítalabyggingar samtímis?“ spyrja læknarnir.