Laun saksóknara hækka um allt að helming eftir úrskurð kjararáðs þann 6. júlí síðastliðinn og almenna 7,15 prósenta launahækkun sem tók gildi þann 1. júní. Laun saksóknara hjá ríkissaksóknara hækka um 46 prósent og verða tæplega 1,4 milljónir króna á mánuði. Hækkanirnar eru í báðum tilfellum afturvirkar og hækkandi frá 1. júlí árið 2015. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
Þar segir að laun Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara hækka um 53 prósent í sumar og verða yfir 1,5 milljónir króna. Laun Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara verða tæplega 1,6 milljónir króna og hækka um 11 prósent að meðtalinni hinni almennu launahækkun í sumar frá fyrra starfi hans sem sérstakur saksóknari. Ólafur fékk greiddar um 2,1 milljón á mánuði eða full laun héraðssaksóknara og helming launa sérstaks saksóknara frá skipun hans í embætti 28. október 2015 til síðustu áramóta. Á því tímabili gegndi hann bæði starfi héraðssaksóknara og sérstaks saksóknara.
Laun Kolbrúnar Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara verða um 1,4 milljónir króna á mánuði og laun almennra saksóknara embættisins jöfn launum saksóknara hjá ríkissaksóknara, tæplega 1,4 milljónir króna á mánuði.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem stýrt er af Bjarna Benediktssyni, hefur birt drög að frumvarpi til nýrra laga um kjararáð og óskað eftir umsögnum um það. Í frumvarpi felast miklar breytingar á hlutverki kjararáðs og mörg hundruð opinberir starfsmenn verða færðir undan ákvörðunum ráðsins og veittur samningsréttur.