Það er lýðræðisleg óhæfa að ætla að keyra í gegn búvörusamning til tíu ára, sem muni kosta meira en Icesave, í aðdraganda þingkosninga. „Færa má rök fyrir að það stangist á við stjórnarskrá,“ skrifar Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. „Nýtt þing verður að hafa svigrúm til að breyta honum án þess að baka ríkinu stórkostlega skaðabótaábyrgð.“
Össur segir að búvörusamningurinn sé í uppnámi og engin samstaða sé um hann. Búvörusamningurinn er eitt þeirra mála sem stjórnvöld hafa sagt að þau vilji klára áður en boðað verði til þingkosninga.
„Ástæðan er að hann var hripaður saman án nokkurs samráðs í lokuðum, reykfylltum bakherbergjum. Samráð, sem lofað var, varð ekkert. Þverpólitísk nefnd var slegin af þegar búið var að tilnefna fulltrúa allra þingflokka.“
Össur segir samninginn ekki þjóna nægilega markmiðum landgræðslu, endurheimt votlendis eða gagnaðgerðum í loftslagsmálum. Þá séu ekki stigin skref til að styðja við ímynd landsins um hreinleika, og í einstökum efnum gagnist hann sterkum byggðum hlutfallslega á kostnað veikra byggða. „Bændaforystan og Framsókn hafa klúðrað því að draga fram það sem er best við íslenskan landbúnað, og má sannarlega hrósa honum fyrir. Ísland er nefnilega sérstaklega „hreint“ landbúnaðarland.“
Össur segir að samningurinn þurfi að breytast til að tekið sé miklu meira mið af loftslagsvernd, vernd gróðurs og umhverfis, neytendahyggju og styrkari landsímynd um hreinleika. „Ég mun alla vega aldrei styðja búvörusamning til tíu ára,“ skrifar Össur að lokum á Facebook-síðu sína.