Starfshópur sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði í lok apríl og á að yfirfara lög um fjármálafyrirtæki til að setja hömlur á fjárfestingabankastarfsemi stóru bankanna þriggja, mun ekki skila tillögum sínum fyrir 1. september eins og gert var ráð fyrir. Hópurinn mun þess í stað óska eftir því að skila tillögum sínum, í formi lagafrumvarps, fyrir lok þessa árs. Því munu tillögurnar ekki liggja fyrir áður en þingkosningar fara fram í haust. Frá þessu er greint í DV.
Vinna starfshópsins snýst um að takmarka fjárfestingabankastarfsemi Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka, hinna þriggja endurreistu viðskiptabanka sem eru að mestu fjármagnaðir með innstæðum Íslendinga. Vinna hópsins miðar að því að koma til móts við kröfur um aðskilnað á viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi, sem hafa verið háværar í samfélaginu, meðal annars innan Framsóknarflokksins. Rökin fyrir slíkum aðskilnaði eru þau að fjárfestingabankastarfsemin sé mun áhættusamari, getur leitt af sér mikinn ágóða en líka mikil töp, en viðskiptabankastarfsemin nýtur ríkisábyrgð. Því sé ekki tækt að ríkið sé í ábyrgð fyrir starfsemi sem ætti fyrst og síðast að vera áhyggjuefni eigenda fjárfestingabanka.
Starfshópurinn er skipaður Leifi Arnkeli Skarphéðinssyni, sérfræðingi á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar hjá fjármálaráðuneytinu sem er formaður hans, Sigríði Benediktsdóttur, fráfarandi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, Sigríði Logadóttur, aðallögfræðingi Seðlabankans, Jóni Þór Sturlusyni, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins, og Björk Sigurgísladóttur, lögfræðingi hjá eftirlitinu.
Takmarka heimildir til að kaupa eigin bréf
Í DV er greint frá því að á meðal þeirra verkefna sem starfshópurinn á að takast á við er að kanna hvort hægt sé að tryggja dreift eignarhald á bönkum með lagakvöðum, hvort tilefni sé til að setja frekari lagaskyldur um aðskilnað starfssviða í stóru íslensku bönkunum, hvort hægt sé að takmarka að stóru bankarnir sölutryggi verðbréfaútboð, hvort hægt sé að setja frekari takmarkanir á viðskiptavakt á milli kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja og hömlur á að þeir geti átt viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning. Þá kemur fram í skipunarbréfi starfshópsins að ráðherrann vilji að hann skoði hvort taka eigi upp reglur sem afmarka nánar þá starfsemi sem hefur áhrif á innstæðuskuldbindingar bankastofnana, til að tryggja innstæðueigendum aukna vernd frá áhættumeiri starfsemi bankans.
Þar segir einnig að starfshópurinn hafi í vinnu sinni þegar lokið við að leggja drög að breytingum sem fela í sér að heimildir banka til að kaupa eigin bréf verði takmarkaðar frá því sem nú er, en kaup banka á eigin bréfum voru mikið og viðvarandi vandamál fyrir hrun. Slík kaup hafa leitt af sér ákærur og sakfellingar fyrir markaðsmisnotkun. Þá stendur til að hækka lágmarkskröfur um vogunarhlutfall bankanna upp í fimm prósent.