Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, vill að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra leggi fram frumvarp til fjáraukalaga í ágúst til að losa sjúklinga undar greiðsluþátttöku, efl Landspítalann og endurreisa heilsugæsluna. Allir þingmenn ættu að greiða frumvarpinu atkvæði og sýna þannig að þeir þjóni þjóðinni sem vill að þetta gerist.
Segir ríkisstjórn Jóhönnu hafa holað kerfið
Kári segir mun á stjórnmálaflokkum virðast einungis vera til staðar þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. „Þegar þeir eru komnir í stjórn eru þeir allir eins án tillits til hægri eða vinstri, upp eða niður, himnaríkis eða helvítis,“ segir Kári Stefánsson í stöðufærslu sinni á Facebook í morgun.
„En það er bara þannig með þessar pólitísku hugmyndafræðir að þær virðast vera vitagagnslaust drasl þeim sem eru komnir á valdastóla og veitir okkur kjósendum litla innsýn í það sem þeir kynnu að gera sem við viljum koma þangað,“ skrifar hann og bætir við að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingar og Vinstri grænna, endanlega hafa losað hann við þá tálsýn að pólitísk hugmyndafræði hafi forspárgildi um það hvernig stjórnmálamenn hagi sér á valdastólum.
„Þegar í harðbakkann sló holaði hún velferðarkerfið að innan, lét utanríkisþjónustuna í friði, reisti Hörpu (að vísu vildi Katrín Jakobsdóttir láta mála vinstri hliðina á henni græna en það gleymdist) og byrjaði að bora gat í gegnum Vaðlaheiðina. Þetta var fyrsta hreinræktaða félagshyggjuríkisstjórnin í sögu lýðveldisins?“
Hann gerir grín að stjórnmálamönnum sem eru að undirbúa kosningabaráttu og segir flesta flokkana nú virðast vera að staðsetja sig vinstra megin við þann stað sem þeir voru á fyrir síðustu kosningar. Hann nefnir þar sérstaklega Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og orð hans í viðtali við Morgunblaðið á dögunum þegar hann sagði að tími væri kominn til að efla frekar innviði samfélagsins og velferðarkerfið. Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei lofað neinu, en nú sé hann komin í slíka aðstöðu með orðum Bjarna, en sé jafnframt í aðstöðu til að svíkja eins og síðasta ríkisstjórn.
Píratar hafa enga pólitíska hugmyndafræði að hunsa
Kári hvetur fólk til þess að ganga til kosninga með svolitla gleði í hjarta og greiða atkvæði með þeim flokki sem það hefur minnsta fyrirlitningu á.
„Ef þetta gerist ekki er hætta á því að við kjósum öll Píratana vegna þess að þeir hafa í raun réttri enga pólitíska hugmyndafræði að hunsa, hafa ekki haft tækifæri til þess að svíkja loforð og þótt þeir séu harla lítið sem ekki neitt eru þeir býsna hip og kúl. Það er nefnilega þannig að óplægður akur í hraungrýti getur verið svo miklu meira aðlaðandi en illgresið í garðinum heima.“