Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kemur saman klukkan 15 á miðvikudag í fyrsta sinn eftir sumarfrí. Meðal dagskrárliða er rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattaundanskotum. Ögmundur Jónasson, formaður nefndarinnar og þingmaður Vinstri grænna, segir að ríkisstjórnin hafi gefið það út að farið verði í gang með könnun á þessum málum.
„Við ætlum að sjá hvað hefur gerst hjá þeim á þessum vettvangi. En það verða engar ákvarðanir teknar á þessum fundi,“ segir Ögmundur við Kjarnann.
Þá verði einnig farið yfir þingsályktunartillögu VG, sem lögð var fram í apríl í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla um Panamaskjölin, um að rannsókn verði gerð á fjölda og starfsemi félaga sem tengjast íslenskum aðilum, einstaklingum og lögaðilum í skattaskjölum. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Framsóknarflokks, sagðist í kjölfarið vonast til þess að tillagan næði fram að ganga.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipaði starfshóp í lok apríl sem átti að koma með tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum sem saman myndi aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn skattsvikum og nýtingu skattaskjóla.
Meðal þeirra sem áttu sæti í hópnum voru Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri, Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en hún var jafnframt formaður hópsins. Skýrslu starfshópsins var skilað til Bjarna 30. júní en hún hefur ekki verið gerð opinber. Ögmundur hefur sjálfur ekki séð skýrsluna né heyrt neitt um hana.
Á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar koma gestir frá fjármálaráðuneytinu til að fara yfir stöðuna. Um morguninn verða einnig fundir hjá fjárlaganefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd. Seinnipartinn funda einnig utanríkismálanefnd og atvinnuveganefnd.