Rúmur fjórðungur þeirra tillagna sem sérstakur hagræðingahópur ríkisstjórnar Íslands lagði fram í nóvember 2013 hafa komist til framkvæmda. Það er nánast óbreytt staða frá því á síðasta ári. Alls skilaði hópurinn af sér 111 tillögum sem samkvæmt áliti meirihluta fjármálanefndar um fjármálaáætlun næstu fimm ára hafa einungis 30 þeirra komist til framkvæmda.
Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar skilaði 111 tillögum um mögulega hagræðingu í íslenska stjórnkerfinu í nóvember 2013. Tillögurnar áttu það sameiginlegt að engin þeirra er útfærð. Auk þess kom ekki fram hjá hópnum, sem skipaður var stjórnarþingmönnunum Ásmundi Einari Daðasyni, Vigdísi Hauksdóttur, Guðlaugi Þór Þórðarssyni og Unni Brá Konráðsdóttur, hvaða ábata framkvæmd tillagnanna myndi skila í ríkisrekstrinum. Ásmundur Einar, sem var formaður hópsins, var skömmu síðar ráðinn sem sérstakur tímabundinn aðstoðarmaður þáverandi forsætisráðherra til að samhæfa verkefni milli ráðuneyta og fylgja eftir tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Hann varð þar með fyrsti þingmaður Íslandssögunnar til að gegna einnig hlutverki aðstoðarmanns ráðherra.
hægt er að lesa tillögurnar hér.
Vinnan ekki í forgrunni
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlun áranna 2017-2021 segir að brýnt sé að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hafi verið með skipun hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Sú vinna hafi hins vegar ekki verið mikið í forgrunni á síðustu misserum. Núna sé staðan sú að af tillögum hópsins, sem voru 111, hafi 30 komist í framkvæmd en aðrar eru ýmist í vinnslu eða í athugun. „Það er nánast óbreytt staða frá því fyrir ári. Forsætisráðuneytið mun taka saman heildaryfirlit um stöðu tillagna hagræðingarhópsins í sumar og í kjölfarið er hægt að gera upp stöðuna og þá kemur í ljós hvaða verkefni hafa ekki hlotið framgang og ástæður þess í hverju tilfelli fyrir sig.“
Gagnrýna kostnað við stofnun Menntamálastofnunar
Þá segir í nefndarálitinu að fækkun stofnana hafi ekki leitt til mikillar fækkunar starfsmanna þeirra. Fjöldi ársverka innan A-hluta ríkisins hafi haldist nánast óbreyttur í nokkur ár. Þau hafi verið16.313 í fyrra og nánast jafnmörg árið á undan þegar þau voru 16.276. Árið 2011 voru ársverkin 16.530 og þeim hefur því fækkað um 217 eða aðeins um 1,3 prósent á þessu tímabili.
Síðan er stofnun Menntamálastofnunar, sem varð til með sameiningu Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar og tók til starfa 1. október 2015, gagnrýnd harðlega. Það vekur sérstaka athygli vegna þess að það var Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og samflokksmaður margra þeirra sem standa að álitinu, sem stóð að sameiningunni. Í nefndarálitinu segir: „Sameiningar stofnana leiða oftar en ekki til stóraukinna útgjalda fyrsta árið, einkum vegna húsnæðisbreytinga og biðlauna. Nýjasta dæmið um það er stofnun Menntamálastofnunar þar sem ætlunin var að ná fram hagræðingu en þess í stað hefur stjórnsýslukostnaður málasviðsins aukist um 340 millj. kr. frá árinu 2013, m.a. vegna biðlauna og annarra einskiptisútgjalda. Meiri hlutinn telur að skoða beri hvort ekki megi nýta fjármunina betur með því að draga úr stjórnsýslukostnaði en styrkja þess í stað önnur málefnasvið, svo sem háskóla.“