Íslenskir fjárfestar eru hættir við að taka þátt í framkvæmd við einkarekið sjúkrahús sem til stóð að byggja í Mosfellsbæ. Þeir segjast ósáttir við að ekki sé búið að gefa upp hvaða fólk stendur að baki hollenskum fjárfestingasjóði sem stendur að baki verkefninu. RÚV greindi frá þessu í hádegisfréttum.
Aðalforsvarsmaður framkvæmdarinnar, Hollendingurinn Henri Middeldorp, fer fyrir íslensku fyrirtæki, MCBP, sem er að mestu í eigu hollensks félags, Burbanks Holding. VHE vélaverkstæði í Hafnarfirði og Gunnar Ármannsson, lögmaður vélaverkstæðisins, áttu síðan eins prósenta hlut hvor. Fram kemur hjá RÚV að Gunnar og forstjóri vélaverkstæðisins hafa sagt sig úr stjórn félagsins. Gunnar segir í samtali við fréttastofu RÚV að hann og vélaverkstæðið hafi jafnframt afsalað hollenska móðurfélaginu hlutum sínum í því íslenska.
Vildi ekki tjá sig við Kjarnann
Middeldorp vildi ekki tjá sig um málið þegar Kjarninn náði tali af honum í vikunni. Hann sagði að forsvarsmenn sjúkrahússins vildu bíða og sjá hvað yfirvöld segðu um málið, enda ætti málið að vera unnið í fullri samvinnu við þau. Áformin um sjúkrahúsið voru harðlega gagnrýnd, bæði af fólki í heilbrigðisgeiranum og svo stjórnmálamönnum. Framkvæmdin átti að kosta um 50 milljarða króna, svipað og bygging nýs Landspítala.
Bæjarstjórinn setti varnagla vegna umræðunnar
Kjarninn greindi frá því í júlí að forsvarsmenn fyrirtækisins ætluðu ekki að hefja framkvæmdir fyrr en sótt verði um skattaívilnanir hjá stjórnvöldum. Þá verði nöfn fjárfesta heldur ekki gerð opinber fyrr en umsagnirnar verða lagðar fram. Gögn um nöfn fjárfesta og mat frá viðskiptabanka verða lögð fyrir stjórnvöld og höfðu forsvarsmenn sjúkrahússins frest til þess fram til 1. desember 2017.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, var þá ekkert sérstaklega bjartsýnn um framtíð verkefnisins: „Svo getur vel verið að umræðan sem hefur skapast í kring um þetta drepi verkefnið. Það getur vel farið svo.“
Lögin skuli vernda heilbrigðiskerfið
Velferðarnefnd Alþingis fundaði um málið í gær. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður nefndarinnar, sagði við Kjarnann í gær að nauðsynlegt sé ganga úr skugga um hvort íslensk lög geti tryggt að heilbrigðiskerfi landsins sé ekki ógnað. Nefndin fékk til sín fulltrúa frá velferðarráðuneytinu og Landlæknisembættinu til að fara yfir stöðuna. „Heilbrigðiskerfið er grunnstoð í öllum samfélögum og það er mikilvægt að lögin séu þannig að það sé ekki hægt að þróa kerfið í hvaða átt sem er eftir þörfum fjárfesta,“ sagði Sigríður Ingibjörg.