Íbúðalánasjóður mun aðeins veita sértæk lán á samfélagslegum forsendum eða vegna markaðsbrests, samkvæmt frumvarpi Eyglóar Harðardóttur um breytingar á lögum um húsnæðismál. Þetta kemur fram í tilkynningu Íbúðalánasjóðs til kauphallarinnar.
Íbúðalánasjóður mun þannig hætta að lána almenn íbúðalán nema til þeirra sem „ekki eiga kost á fasteignalánum á ásættanlegum kjörum hjá öðrum lánastofnunum svo sem vegna staðsetningar fasteignarinnar eða af öðrum ástæðum. Núgildandi ákvæði um hámarkslán og hámarksverð fasteigna mun haldast óbreytt og sama máli gegnir um greiðslugetu lántaka og veðhæfi fasteignar,“ segir í tilkynningunni. Fyrirkomulagið á að vera líkt og það sem tíðkast í Noregi og Finnlandi, þar sem Husbanken og ARA sinna svona hlutverki.
Sjóðurinn mun áfram lána til leigufélaga sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða og til sveitarfélaga.
Þetta er veruleg breyting á hlutverki sjóðsins, en hann lánar nú til allra.
Íbúðalánasjóði verður einnig gert að hafa skýran bókhaldslegan aðskilnað á milli eldra lánasafns og skuldbindinga og nýrra lána og stofnframlaga.
Íbúðalánasjóður fær nýtt hlutverk með lögunum um almennar íbúðir, sem var eitt þeirra húsnæðismála sem Alþingi samþykkti fyrr í sumar. Íbúðalánasjóður á að annast veitingu stofnframlaga til bygginga almennra íbúða og á að hafa eftirlit með þeim aðilum sem fá slík framlög. Íbúðalánasjóði er ætlað að hafa umsjón með framkvæmd laganna, honum er ætlað að taka við umsóknum og taka ákvarðanir um veitingu stofnframlaga ríkisins. Sjóðurinn metur því hvort málefnaleg sjónarmið leiði til þess að unnt sé að veita umsækjendum stofnframlög til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum, hvort umsóknir samræmist lögum og reglugerðum og jafnframt hvort umrætt húsnæði teljist hagkvæmt og fullnæjandi sem íbúðahúsnæði. Sjóðurinn á líka að meta það hvort þörf sé á leiguhúsnæði fyrir efnaminni leigjendur á viðkomandi svæði og hvort fjármögnun hafi verið tryggð með fullnægjandi hætti.
Ennfremur á sjóðurinn að hafa eftirlit með þeim sem hafa fengið stofnframlög frá ríkinu og rekar almennar íbúðir, samkvæmt frumvarpinu. Hann mun geta beint tilmælum um úrbætur til eigenda íbúðanna ef hann telur rekstur ekki í samræmi við lög og geta tilnefnt eftirlitsmenn til að fylgjast með íbúðunum og úrbótum.
Skýrir framtíðarhlutverk sjóðsins
Frumvarpið skýrir að einhverju leyti framtíðarhlutverk sjóðsins, sem hefur verið í talsverðri óvissu vegna ýmissa þátta. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur talað fyrir því að sjóðurinn yrði leystur upp
Afkoma Íbúðalánasjóðs var um margt jákvæð á síðasta ári, eins og Kjarninn fjallaði um í mars. Sjóðurinn skilaði 1,8 milljarða króna rekstrarhagnaði á árinu 2015, og er það annað árið í röð sem hann skilaði hagnaði eftir að hafa grætt 3,2 milljarða króna árið 2014. Árin þar á undan höfðu hins vegar verið afar slæm. Alls tapaði sjóðurinn tæpum 58 milljörðum króna frá árslokum 2008 og út árið 2013. Ríkissjóður þurfti að leggja honum til 53,5 milljarða króna á árinu 2009 til að halda sjóðnum gagnandi.
Á árinu 2014 var þorri þess hagnaðar sem Íbúðalánasjóður sýndi vegna breytinga á virðisrýrnun útlána. Þ.e. innheimtanleiki lána hans jókst um 2,5 milljarða króna. Sama var upp á teningnum í fyrra. Virðisrýrnun útlána lækkaði um 4,4 milljarða króna og útskýrir því vel rúmlega allan hagnað Íbúðalánasjóðs á síðasta ári líka. Í tilkynningu vegna ársreiknings sjóðsins segir: „Breyting virðisrýrnunar tengist umtalsverðri lækkun vanskila heimila og sterkari tryggingarstöðu lánasafnsins vegna hækkana á fasteignamarkaði.“
Útlán sjóðsins héldu hins vegar árfram að lækka á síðasta ári líkt og árin á undan. Þau lækkuðu um tæpa 80 milljarða króna í fyrra. Þar af voru, líkt og áður sagði, 33,8 milljarðar króna vegna leiðréttingarinnar. Íbúðalánasjóður er samt sem áður langstærsti íbúðalánaveitandi á landinu, þrátt fyrir litla útlánaveitingu og miklar uppgreiðslur árum saman. Markaðshlutdeild hans, samkvæmt útreikningum Kjarnans, er rúmlega 40 prósent á íbúðalánum til einstaklinga.