Samkvæmt nýrri spá greiningardeildar Arion banka, er því spáð að verðbólga á ársgrundvelli haldi áfram að lækka og verði 0,8 prósent í ágúst, þar sem hún hækki aðeins um 0,2 prósent. Hún mælist nú 1,1 prósent og hefur verið undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í meira en tvö ár.
Ástæðan fyrir minnkandi verðbólgu er ekki síst rakin til styrkingar krónunnar gagnvart alþjóðlegum myntum en hún hefur styrkst um ríflega 10 prósent gagnvart evru og Bandaríkjadal á undanförnu ári, og 25 prósent gagnvarti pundinu, sem kostar nú 157 krónur.
Þrátt fyrir miklar launahækkanir að undanförnu, í kjölfar kjarasamninga, þá hefur verðbólgan ekki farið á flug, eins og spár flestra greinenda, þar á meðal hjá Seðlabanka Íslands, gerðu ráð fyrir. Þar vegur styrking krónunnar þungt þar sem þá dregur úr verðbólguþrýstingi erlendis frá.
Þá hefur olíuverð haldist nokkuð lágt, eða í kringum 40 Bandaríkjadali á tunnuna, miðað við hráolíu á Bandaríkjamarkaði. Þetta hefur hjálpað til við að halda verðbólgunni í skefjum.
Þrátt fyrir að verðbólgan sé lág, þá eru meginvextir Seðlabanka Íslands nú 5,75 prósent.