Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvartaði undan Samfylkingarfólki sem hefur kallað hann rasista í ræðu á Alþingi nú síðdegis. Hann beindi fyrirspurn til Oddnýjar Harðardóttur, formanns Samfylkingarinnar, og spurði hvort þetta væri sú leið sem Samfylkingin vildi fara.
„Í lok þingsins í vor, rétt fyrir hlé, þá kallaði formaðurinn mig Donald Trump og lýsti mér sem einhverjum rasista í því sambandi. Hún hefur hrósað Semu Erlu Serdar fyrir að kalla mig rasista á opinberum vettvangi og henni fannst það vel að verki staðið,“ sagði Ásmundur meðal annars. Hann talaði líka um nýleg ummæli ritara Samfylkingarinnar, Óskars Steins Jónínu Ómarssonar, um frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og fann að því að hann sjálfur hefði verið kallaður rasisti, Ragnheiður Elín Árnadóttir duglaus og Árni Johnsen dæmdur þjófur. Hann sagði þessa umræðu á vegum Samfylkingarinnar sýna breyttar áherslur og spurði hvort þetta væri innlegg flokksins í sanngjarnari umræðu í þjóðfélaginu.
Oddný svaraði Ásmundi á þinginu og sagði: „Engum hef ég hrósað fyrir að kalla háttvirtan þingmann rasista. Í Samfylkingunni ríkir málfrelsi og formaðurinn segir félögum ekki til hvað þau megi segja og hvað ekki.“
Hún sagði að hún legði áherslu á að mannúð og mannvirðing væri alltaf í fyrirrúmi, og þingmenn þurfi ekki síst að gæta orða sinna. Þegar Ásmundur hafi velt því fyrir sér hvort ekki þyrfti að kanna bakgrunn þeirra múslima sem búi á Íslandi, til að kanna tengsl við hryðjuverk, hafi margir orðið reiðir og sárir. „Einhverjir skildu háttvirtan þingmann svo að hann væri að hvetja til mismununar og ýta undir fordóma.“
Hún sagði það geta reynst sumum freisting í aðdraganda kosninga að tala inn í óttann við hið óþekkta. „Við sem á Alþingi sitjum eigum að gæta hagsmuna allra, óháð trú, og varast að ýta undir hatur og fordóma.“
Vildi snúa flóttamönnum við í Leifsstöð
Um miðjan janúar í fyrra spurði Ásmundur að því á Facebook síðu sinni hvort bakgrunnur múslima á Íslandi hafi verið kannaður, og hvort einhverjir þeirra hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í löndum þar sem „óöld ríkir meðal múslima.“ Hann sagðist í kjölfarið vera að vekja umræðu um þessi mál. „Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum að hafa áhyggjur af því að hér leynist slíkt fólk. Ég hef ekki hugmynd um það. Mér finnst að við eigum að taka umræðuna um það. Hvað við viljum gera og hvernig við viljum standa að þessu,“ sagði hann í viðtali við Vísi.
Ásmundur gerði hryðjuverkin í Kaupmannahöfn svo að umtalsefni í febrúar í fyrra. „Nú lýsa trúbræður morðingjans yfir stuðningi við hann. Í nágrannalöndum okkar er opin umræða um þá hættu sem steðjar að hinum frjálsa heimi og þjóðfélögum vegna fjölgunar á árásum einstaklinga og hvers konar öfgahópa. Hér á landi á engin slík umræða sér stað og spurningin hvað við ætlum lengi að skila auðu í þeirri umræðu um öryggi íbúanna.“ Ásmundur sagði að á Íslandi hefðust menn öðruvísi að. „Þeir sem vekja athygli á hættunni sem steðjar að nágrönnum okkar eru skotnir niður og ataðir auri í samfélagsumræðunni sem aldrei kemst á það stig að rætt sé um málefnið.“
Í byrjun mars á þessu ári sagði hann svo „Það er mikilvægt að við skoðum það hvort það sé nauðsynlegt á þessari stundu að flóttamönnum, eða hælisleitendum, sé snúið við í Keflavík og þeir sendir aftur til síns heima....Flóttamannastraumurinn er stórkostlegt vandamál eins og við höfum heyrt á undanförnum mánuðum. Svíar og Danir hafa lokað landamærum sínum til að takmarka komu flóttamanna og til að geta fylgst með því hverjir koma til landsins. Austurríkismenn og Balkanlöndin hafa fundað sérstaklega vegna vanda Schengen-svæðisins en Grikkland er galopið og þar streymir flóttafólk inn sem aldrei fyrr og á þá greiða leið inn í Schengen-löndin.“
Ásmundur greiddi atkvæði gegn nýjum útlendingalögum í vor, einn tveggja þingmanna.