Viðar Ingason, hagfræðingur hjá VR, segir að það komi ekki að öllu leyti á óvart að verðbólga sé jafn lítil um þessar mundir og raunin er, eða 1,1 prósent. Fátt virðist auk þess benda til þess að verðbólgan muni aukast mikið á næstunni, þó óvissa ríki ávallt um hvernig þróun verði á erlendum mörkuðum. Í meira en tvö ár hefur verðbólgan haldist undir 2,5 prósent og hefur þróun verðbólgunnar verið þvert á spár Seðlabanka Íslands. „Það eru nokkrir þættir sem hafa haft hvað mest áhrif á það að verðbólga er hér í sögulegu lágmarki. Það fyrsta er að olíuverð hefur lækkað mjög mikið og haldist lágt. Í öðru lagi þá hefur krónan styrkst meira en almennt var gert ráð fyrir en það hefur sýnt sig að erfitt er fyrir seðlabanka að reyna að sporna gegn styrkingu gjaldmiðla. Í þriðja lagi hefur hægagangur erlendis spilað inn í og má m.a. sjá áhrif þess á mikilli lækkun á fleiri hrávörum en olíu, svo sem hveitis, korns, hrísgrjóna, sojabauna o.s.frv.“
Framhlaðnir kjarasamningar
Viðar segir að staðan nú sé þannig, að það sé alveg sama hvaða mælikvarðar séu notaðir. Verðbólgan sé einfaldlega mun minni en Seðlabankinn hafði reiknað með, og svigrúm til launahækanna hafi verið meira en reiknaði hafði verið með. „Það skiptir litlu máli hvaða mælikvarði á verðbólgu er notaður, allir sýna þeir að verðbólga sé enn lág og að svigrúm fyrirtækja til að taka á sig auknar launahækkanir hafi verið meira og nær því sem við hjá VR höfðum bent á. Ég á erfitt með að sjá að verðbólga fari að aukast eitthvað á næstunni en kjarasamningar voru framhlaðnir þannig að stór hluti umsaminna launahækkana er þegar kominn fram. Engin merki eru enn um að styrking krónunnar sé á enda þó slíkt geti breyst á skömmum tíma og þá sérstaklega þegar kemur að afnámi hafta. Þá er líklegt að olíuverð haldist áfram lágt en engin samstaða er um að draga úr framleiðslu á olíu t.d. meðal OPEC ríkja. Það eru einhverjar vísbendingar um að matarverð í heiminum sé farið að hækka en ekki ljóst hvort það sé tímabundið eða ekki,“ segir Viðar.
Húsnæðisverðið knýr verðbólguna áfram
Viðar segir að fátt bendi til annars, en að hækkun á húsnæðisverði verði sá þáttur sem muni vera sá þáttur sem haldi lífi í verðbólgunni. Undanfarin fimm ár hefur raunverð fasteigna hækkað um meira en 30 prósent á höfuðborgarsvæðinu, og fátt bendir til annars en það haldi áfram að hækka, enda eftirspurn stöðug og mikil, á meðan framboð af eignum er takmarkað og ekki nægilegt.
Styrking krónunnar gæti unnið áfram gegn verðbólgunni, en um leið eru hættumerki uppi varðandi þá gengisþróun, þar sem útflutningsgreinarnar, sem eru með tekjur í erlendri mynt, eru með veikari samkeppnisstöðu ef krónan styrkist mikið til viðbótar. „Ég lít svo á að gengi krónunnar muni halda áfram að styrkjast eitthvað á næstunni meðal annars í ljósi þess hve mikill ferðamannastraumur er til landsins. Fjölgun ferðamanna á fyrstu sjö mánuðum ársins var 34 prósent samanborið við fyrstu sjö mánuði ársins 2015 og það bendir enn lítið til þess að hægja fari á vextinum. Hættan er þó sú að ferðamannastraumurinn styrki gengi krónunnar um of og hafi þannig áhrif á komu ferðamanna til landsins í framtíðinni. Hér skal hafa í huga að erlendir ferðamenn gætu planað ferð til Íslands með nokkurra mánaða eða allt upp í árs fyrirvara og því geti styrking krónunnar undanfarna mánuði haft áhrif á komu ferðamanna eftir nokkra mánuði eða allt upp í ár, allt eftir því með hversu margra mánaða fyrirvara erlendir ferðamenn plani ferð til Íslands,“ segir Viðar.
Máttlausar tilraunir?
Viðar segir að Seðlabankinn hafi reynt að sporn gegn styrkingu gengisins með því að kaupa stóran hlut af innflæði fjármagns, en það sé ekki endilega víst að þær tilraunir dugi. „Ég benti á það í grein minni í Vísbendingu (1. tölublað 2016) að árangur seðlabanka af því að reyna að sporna gegn styrkingu gjaldmiðla væri alls ekki á einn veg og að árangurinn væri oft ekki sá sem stefnt var að. Stóri óvissuþátturinn er þó afnám fjármagnshafta og mögulegt fjármagnsútflæði sem þeim getur fylgt.
Ef hægt verður að koma í veg fyrir útstreymi fjármagns í tengslum við afnám hafta þá hefur í það minnsta tekist að eyða stærsta áhættuþættinum í náinni framtíð hvað varðar gengisveikingu. Horft nokkra mánuði fram í tímann getur styrking krónunnar verið fagnaðarefni fyrir neytendur í formi lægri verðbólgu. Mikil styrking krónunnar mun þó hafa skaðleg áhrif á samkeppnishæfni útflutningsgreinanna okkar, svo sem sjávarútveginn og ferðamannaiðnaðinn en slíkt mun alltaf á endanum bitna á starfsfólki þessara atvinnugreina,“ segir Viðar.