Aðalheiður Ámundadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri þingflokks Pírata, hefur tekið sæti í stjórn Afstöðu, félagi fanga fyrst kvenna. Hún er líka fyrsti stjórnarmaður félagsins frá upphafi sem er ekki fangi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Afstöðu.
Í Fréttablaðinu í dag segir Aðalheiður að hún hafi viljað halda áfram að sinna þeim mikilvæga málaflokki sem fangelsismál eru eftir að hún hætti í starfi sínu hjá Pírötum. „Þetta er sá málaflokkur sem mér þykir vænst um.“
Hún segir margt framundan í starfi Afstöðu. Henni langi að ræða við atvinnurekendur og reyna að koma því betur á kortið að fangar hafi eitthvað að gera bæði í fangelsum og þegar þeir ljúka afplánun.
Aðalheiður, sem er lögfræðingur, hefur lengi gagnrýnt þá refsistefnu sem er rekin, sérstaklega í fíkniefnamálum. Hún hélt m.a. erindi um málið við Háskólann á Akureyri árið 2014 og sagði í kjölfarið í viðtali við Vísi að það eigi að hætta að refsa sjúklingum. „Þetta er í rauninni það sem heitir afglæpavæðing. Svo geta menn rætt þessar lögleiðingarpælingar. Þær þarf að undirbúa það vel og ræða í samfélaginu. Við erum ekki að leggja það til núna með þessu.“
Afstaða fagnar nýju stjórnarkonu sinni og segir í tilkynningunni að mikilvægt sé að hafa talsmann utan fangelsisins svo að fangar geti komið umkvörtunarefnum og því sem miður fer á framfæri við fjölmiðla og stjórnvöld án þess að þurfa að óttast afleiðingar í afplánun sinni. „Þátttaka Aðalheiðar, sem sjálfstæðrar stjórnarkonu, í stjórn Afstöðu mun auka trúverðugleika og vigt félagsins og er mikilvægt skref til þess að halda hinu góða starfi áfram[...]Það hefur varla farið fram hjá neinum sem fylgst hafa með umræðum um málefni fangelsa hér á landi að Píratar hafa látið sig málaflokkinn mjög varða. Aðalheiður hefur heimsótt flest fangelsi landsins á undanförnum árum og hefur stjórn Afstöðu átt við hana mjög góð samskipti. Nú hefur samvinnan verið sett í formlegri farveg og mun félagið njóta krafta hennar sem fullgilds stjórnarmanns.“