Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, er ekki lengur „með í liðinu“ og getur ekki gert miklar kröfur um að fá framgang annarra mála á meðan hún styður ekki það sem aðrir ráðherrar eru að fá. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, við RÚV.
Eygló sat hjá í atkvæðagreiðslu um fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í gær. Ákvörðun hennar hefur verið harðlega gagnrýnd af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem hafa spurt að því opinberlega hvers vegna hún hætti ekki í ríkisstjórninni í ljósi þess að hún hafi ekki stutt þessi stóru mál sem lögð voru fram í nafni hennar.
Bjarni segir við RÚV að það sæti tíðindum að ráðherra styðji ekki lykilmál og eðlilegt sé að menn verði hvumsa við. Eygló sé hins vegar ekki ráðherra á hans ábyrgð. Hvorki hann né þingflokkur Sjálfstæðisflokksins myndu sætta sig við að ráðherra úr þeirra liði sæti hjá í atkvæðagreiðslu af þessu tagi.
„Þetta er ekki þannig að ég velji í ríkisstjórn fyrir Framsóknarflokkinn og ég ætla ekkert að skipta mér að því hvernig þeir raða sínum málum, þeir verða að gera það sjálfir. Það er langbest að fylgja einfaldri línu í þessu, ríkisstjórnin sest yfir það eftir að ráðherranefnd hefur skoðað þau mál, semsagt hvaða svigrúm er til staðar og hvernig við ætlum að skipta því. Svo er fengin niðurstaða. Ef menn segjast ætla að setjast hjá við það þá eru þeir bara ekki með í liðinu,“ sagði Bjarni.
Þegar hann var spurður að því hvort það væri þá hans mat að Eygló væri ekki með í liðinu sagði hann: „Nei hún getur ekki gert miklar kröfur um að fá framgang annarra mála á meðan hún styður ekki það sem aðrir ráðherrar eru að fá. Þetta getur ekki verið bara eins og í leikskóla að menn berji í borðið þangað til hver fái það sem hann vill. Þá verður bara ríkisstjórnin óstarfhæf og allt verður í viðstöðulausri upplausn. En sem betur fer erum við þó ekki komin á þann stað.“
Eygló sagði við RÚV í morgun að hún hefði ekki íhugað að segja af sér vegna málsins. „Það hefur ekkert verið rætt og ég hef ekki íhugað það. Ég hef sinnt mínum verkefnum af mikilli trúmennsku, barist fyrir bættum kjörum lífeyrisþega og fjölskyldna og ég mun halda áfram að gera það.“ Það væri mjög einkennilegt að heyra fólk segja að þingmenn eigi ekki að standa á sannfæringu sinni.
Hún segist ekki hafa tekið ákvörðun um að gefa kost á sér sem formaður Framsóknarflokksins, og segist ekki vera á leið úr flokknum.