Minjastofnun ríkisins hefur borist krafa upp á 600 milljónir króna frá lögmanni fasteignaþróunarfélagsins Reykjavík Development vegna gamla hafnargarðsins. Hann var við Austurbakka og var skyndifriðaður í fyrra að frumkvæði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra. Sigrún Magnúsdóttir, þá settur forsætisráðherra, ákvað að friða hafnargarðinn en Sigmundur Davíð vék frá málinu en Reykjavíkurborg taldi hann vanhæfan til að taka ákvörðunina.
Fréttatíminn greinir frá þessu í dag. Í fréttinni kemur fram að krafa Reykjavík Development sé annars vegar sú, að greiddur verði útlagður kostnaður eigenda lóðar á reitnum við Tollhúsið við að færa hafnargarðinn og setja í geymslu í Örfirisey.
Hins vegar er farið fram á viðræður um kostnað við að koma steinunum fyrir aftur til sýnis fyrir almenning. Lögmaður Reykjavík Development, Bjarki Þór Sveinsson, segir að kostnaður geti mögulega hlaupið á milljörðum króna, að því er fram kemur í frétt Fréttatímans.