Kjörstjórn Framsóknarflokksins í Reykjavík hefur auglýst sérstaklega eftir framboðum frá konum til að sitja á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur í komandi kosningum. Í auglýsingunni, sem birtist á vef flokksins, segir að samkvæmt reglum Framsóknarflokksins þurfi að lágmarki ein kona að skipa eitt af fjórum efstu sætunum og þrjú af efstu sjö sætunum í hverju kjördæmi fyrir sig. Þegar frestur til að skila inn framboðum fyrir lista flokksins í Reykjavík rann út 12. ágúst síðastliðinn höfðu einungis tvær konur skilað inn framboði. Þær eru Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. Tíu karlar skiluðu hins vegar inn framboði í Reykjavík. Því vantar að minnsta kosti fjórar konur á lista flokksins í báðum Reykjavíkurkjördæmunum til að listarnir séu í samræmi við reglur Framsóknarflokksins.
Tvær konur buðu sig fram
Tvöfalt kjördæmaþing Framsóknarflokksins fer fram næsta laugardag, 27. ágúst. Þar verður valið á lista vegna komandi þingkosninga. Kosið verður um fimm efstu sætin í hvoru kjördæmi fyrir sig og var framboðsfrestur til 12. ágúst 2016. Þegar fresturinn var liðinn lá ljóst fyrir að tólf buðu sig fram á lista flokksins í Reykjavík.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sækist ein eftir efsta sætinu í Reykjavíkurkjördæmi suður en í Reykjavíkurkjördæmi norður sækjast þeir Karl Garðarsson alþingismaður, Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður og Haukur Logi Karlsson lögfræðingur allir eftir efsta sætinu. Þá sækist Lárus Sigurður Lárusson héraðsdómslögmaður eftir 2. sætinu í Reykjavíkurkjördæmi norður. Aðrir sem sækjast eftir 2.-5. sæti eru: Alex Björn B. Stefánsson háskólanemi, Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, Björn Ívar Björnsson háskólanemi, Gissur Guðmundsson matreiðslumaður, Gunnar Kristinn Þórðarson stjórnsýslufræðingur, Ingvar Mar Jónsson flugstjóri og varaborgarfulltrúi og Sævar Þór Jónsson héraðsdómslögmaður.
Framboð kvennanna tveggja, Lilju og Ásgerðar Jóna, nægja til að reglu Framsóknarflokksins um að ein kona sé á meðal þriggja efstu á lista sé framfylgt. Það vantar hins vegar að minnsta kosti fjórar konur í efstu sjö sætin á hvorum lista til að regla flokksins um að þrír af efstu sjö þurfi að vera konur sé uppfyllt. Þær konur sem hafa áhuga á að bjóða sig fram fyrir hönd Framsóknarflokksins í Reykjavík eru í auglýsingu á vef flokksins beðnar um að hafa samband við formann kjörstjórnar Framsóknarflokksins fyrir 25. ágúst næstkomandi.
Forystukonur ætla ekki aftur fram
Tvær konur voru í forystusveit Framsóknarflokksins í Reykjavík í þingkosningunum 2013. Vigdís Hauksdóttir, nú formaður fjárlaganefndar, sat í efsta sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra sat í öðru sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hvorug þeirra ætlar að gefa kost á sér í komandi kosningum, sem fyrirhugaðar eru 29. október næstkomandi.
Þá sat Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir í þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og Sunna Gunnars Marteinsdóttir í því sjötta. Sveinbjörg Birna leiddi framboð Framsóknar og flugvallarvina í sveitarstjórnarkosningunum 2014 og er nú borgarfulltrúi í Reykjavík en Sunna er aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hvorug þeirra hefur lýst yfir framboði í komandi kosningum.
Í Reykjavíkurkjördæmi norður sátu Fanný Gunnarsdóttir, kennari og náms- og starfsráðgjafi, og Snædís Karlsdóttir, þá laganemi, í fjórða og fimmta sæti á framboðslista Framsóknarflokksins. Hvorug þeirra hefur lýst yfir framboði í komandi kosningum.