Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, kom ekki að stjórnsýsluákvörðunum í tengslum við nauðasamninga slitabúa föllnu bankanna. Þær voru teknar af Seðlabanka Íslands og fólust í veitingu undanþágu frá fjármagnshöftum. Aðkoma Sigmundar Davíðs að málinu fólst í því að hann „fékk upplýsingar um stöðu mála og valkosti á fundum ráðherranefndar um efnahagsmál og sat kynningarfundi með sérfræðingum úr framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta og fulltrúum í stýrinefnd um losun hafta.“
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um aðkomu að samningum við kröfuhafa og meðferð slitabúa föllnu bankanna. Svarið var birt í dag en fyrirspurnin var lögð fram 4. apríl, daginn áður en að Sigmundur Davíð tilkynnti um afsögn sína sem forsætisráðherra.
Í svari sínu segir Bjarni að undanþágubeiðnir slitabúa föllnu bankanna byggi á nauðasamningum þeirra við kröfuhafa en ekki samningum við stjórnvöld. Tilteknir aðilar og hópar hafi komið að samskiptum við kröfuhafa og slitabú föllnu bankanna. Þeir hafi verið starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytis, forsætisráðuneytis og Seðlabanka Íslands, stýrinefnd um losun fjármagnshafta, sérfræðingahópar um losun fjármagnshafta og aðir ráðgjafar, samráðsnefnd þingmanna og ráðherranefnd um efnahagsmál. Allir þessir aðilar hafi undirritað sérstakar trúnaðarupplýsingar, þagnarheit, verið bundnir reglum um Stjórnarráð Íslands og sérstökum innherjareglum sem settar voru við losun. hafta. Brot gegn viðkomandi reglum gat þýtt að sá sem framdi það brot ætti yfir höfði sér fangelsisvist.
Ekki framkvæmt sérstakt hagsmunamat
Ein spurning Árna Páls snérist um hvernig þess hefði verið gætt að þeir sem komu að málinu af hálfu stjórnvalda væru ekki fjárhagslega tengdir eða hagsmunatengdir kröfuhöfum, bæði sjálfir og í gegnum maka eða venslamenn. Í svari Bjarna segir að við undirbúning samninga við kröfuhafa og meðferð slitabúa föllnu bankanna hafi ekki verið framkvæmt sérstakt hagsmunamat heldur hafi verið „á því byggt að þeir sem áttu hlut að máli vikju sæti, teldu þeir sig hafa slík tengsl við kröfuhafa að það hefði áhrif á hæfi þeirra.“
Ástæða fyrirspurnarinnar er sú staðreynd að panamska félagið Wintris átti kröfur í slitabú Landsbanka Íslands, Kaupþings og Glitnis upp á samtals 523 milljónir króna. Sigmundur Davíð var helmingseigandi félagsins Wintris Inc. þegar það lýsti kröfum í slitabú föllnu bankanna þriggja. Hann seldi síðan helmingshlut sinn í félaginu til eiginkonu sinnar á einn Bandaríkjadal 31. desember 2009. Hún er í dag einn eigandi þess. Kröfurnar eru tilkomnar vegna skuldabréfa sem Wintris keypti á bankanna þrjá fyrir hrun. Sigmundur Davíð hefur ekki viljað upplýsa hvenær nákvæmlega umrædd skuldabréf hafi verið keypt.
Fékk upplýsingar og sat kynningarfundi
Árni Páll spurði svo hver raunveruleg formleg aðkoma Sigmundar Davíðs að þeim samningum sem gerðir voru við kröfuhafa hafi verið? Í svari Bjarna segir: „Þáverandi forsætisráðherra fékk upplýsingar um stöðu mála og valkosti á fundum ráðherranefndar um efnahagsmál og sat kynningarfundi með sérfræðingum úr framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta og fulltrúum í stýrinefnd um losun hafta.[...] Forsætisráðuneytið kom ekki að stjórnsýsluákvörðunum í tengslum við nauðasamningana. Þær voru teknar af Seðlabanka Íslands og fólust í veitingu undanþága frá fjármagnshöftum.“
Varðandi störf ráðherranefndar um efnahagsmál, sem Sigmundur Davíð sat í, segir Bjarni hana ekki hafa átt neina aðkomu að undanþágubeiðnum slitabúanna. „Málefni sem varða losun fjármagnshafta á slitabú föllnu bankanna voru tekin upp með reglubundnum hætti á fundum nefndarinnar og kynnt af fjármála- og efnahagsráðherra ásamt sérfræðingum ráðuneytisins eða framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta eftir atvikum. Valkostir voru ræddir og afstaða tekin til þeirra en ákvarðanir, sér í lagi um lagasetningu, voru teknar í ríkisstjórn. Fundargerðir nefndarinnar liggja fyrir í málaskrám forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.“
Varðandi starfssvið stýrihóps um afnám hafta segir Bjarni að hún hafi verið skipuð af sér, og að hann hafi sjálfur verið formaður hennar. „Nefndin hefur það verkefni að stýra vinnu og tillögugerð um losun fjármagnshafta. Tillögur stýrinefndarinnar eru svo ræddar í ráðherranefnd um efnahagsmál og eftir atvikum samþykktar af ríkisstjórn. Þáverandi forsætisráðherra sat ekki fundi stýrinefndar en sat hins vegar kynningarfundi með ráðgjöfum ásamt fulltrúum í stýrinefnd. Í stýrinefndinni sitja ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins og efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar.“