Framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna, ungliðahreyfingar VG, vill að Ögmundur Jónasson, þingmaður flokksins, biðji VG og allar konur í stjórnmálum afsökunar á ummælum sínum í Vikulokunum um helgina.
„Ég er náttúrulega oft búinn að heyra þessa ræðu. Nú eru þær að lýsa sinni upplifun og ég efast ekki um að hún sé sönn en þó hef ég stundum á tilfinningunni að konur séu að nýta sér svona tal sjálfum sér til framdráttar,“ sagði Ögmundur meðal annars í Vikulokunum á Rás 1 á laugardaginn. Þessum orðum hans var harðlega mótmælt af bæði Björtu Ólafsdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar, og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Þær höfðu báðar rætt um stöðu kvenna í stjórnmálum og að þeim þætti viðhorfið til kvenna öðruvísi en karla.
Ung vinstri græn segjast harma ummælin, og að þau telji það „óásættanlegt að þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs tali eins og hin versta málpípa feðraveldisins.“ VG sé hreyfing sem kenni sig við kvenréttindi og femínisma og það sé því alveg ljóst að ummæli Ögmundar séu þvert á stefnu flokksins.
„Telur UVG því nauðsynlegt að forysta flokksins geri almenningi það ljóst að þessi ummæli séu þvert á stefnu flokksins, og reyni ekki að þegja þau af sér. Framkvæmdastjórn UVG krefst þess að Ögmundur Jónasson biðji hreyfinguna afsökunar á ummælum sínum sem og allar konur í stjórnmálum.“