Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur, hefur formlega lýst yfir áhuga á því að taka sæti á lista Viðreisnar í komandi þingkosningum, sem fyrirhugaðar eru 29. október næstkomandi. Pawel greindi frá því á Twitter að hann væri gengin til liðs við Viðreisn og í samtali við Kjarnann staðfesti hann áhuga sinn á því að vera á framboðslista flokksins. Fari hann fram muni hann taka sæti á lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.
Viðreisn mun bjóða fram í fyrsta sinn í komandi haustkosningum. Framboðið hefur verið í undirbúningi frá árinu 2014 hið minnsta. Formaður flokksins er Benedikt Jóhannesson og hann verður í framboði í Reykjavík, samkvæmt upplýsingum Kjarnans. Fyrr í dag var greint frá því að Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), íhugi framboð fyrir Viðreisn.
Í nýjustu kosningaspá Kjarnans mælist fylgi flokksins 8,7 prósent, eða jafn mikið og fylgi Framsóknarflokks og Samfylkingar. Viðreisn ætlar að bjóða fram í öllum kjördæmum og áformar að skila inn framboðslistum um komandi mánaðarmót.