Hlutdeild dagblaða í auglýsingabirtingum hjá birtingarfyrirtækinu Birtingarhúsinu hefur farið úr 44,5 prósent árið 2007 í 22 prósent það sem af er þessu ári. Frá 2014 og fram til dagsins hefur hlutdeild dagblaða farið úr 32,4 prósent niður í 22 prósent. Þetta kemur fram í frétt um miðlaköku Birtingahússins fyrir fyrri hluta ársins 2016.
Engar miðlægar upplýsingar hafa verið til um hvernig auglýsingafé skiptist í heild á milli fjölmiðla á Íslandi. Fjölmiðlanefnd tók saman upplýsingar í fyrra í samstarfi við fimm stærstu birtingarhús landsins sem sýndu skiptingu birtingarfjár milli miðla á árinu 2014. Þar kom fram að prentmiðlar tóku enn mest til sín á því ári, eða 37 prósent. Þar voru dagblöð og tímarit hins vegar mæld saman undir hattinum prentmiðlar. Þá fór einungis 15 prósent birtingarfjár til vefmiðla.
Birtingarhúsið hefur eitt slíkra fyrirtækja reglulega birt tölur um hvernig birtingafé skiptist á milli miðla hjá sér. Stóru fréttirnar í nýjustu tölunum sem fyrirtækið hefur birt eru að hlutdeild sjónvarps hefur vaxið umtalsvert (tekur nú til sín 38 prósent af kökunni en var með 29,5 prósent hennar 2014) en hlutdeild dagblaða minnkað verulega.
Í frétt Birtingarhússins segir: „Sjónvarpsmiðlar spegluðu í fyrra rétt tæpan þriðjung af veltunni. Ástæður aukningarinnar á milli tímabila geta verið nokkrar. Klárt er að Evrópumótið í fótbolta gerði heilmikið. Einnig voru stöðvarnar með dagskrárefni sem náði vel til landans. Má þar nefna Ófærð og Ligeglad í Sjónvarpinu, Biggest Loser Ísland á SkjáEinum (núna Sjónvarp Símans) og Ísland Got Talent á Stöð 2. Einnig mynduðust talsverðir „fréttatoppar“ á tímabilinu meðal annars í kringum Wintris-málið og forsetakosningarnar.“
Miklu færri lesa dagblöð
Samdráttur í birtingarfé dagblaða hefur hins vegar verið gríðarlegur á undanförnum árum samhliða hríðfallandi lestri á þeim. Fréttablaðið, sem er dreift frítt í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar, var til að mynda lesið af 64 prósentum landsmanna árið 2010. Í nýjustu fjölmiðlakönnun Gallup mældist lesturinn 47,6 prósent. að er fyrst og fremst yngra fólk sem er hætt að lesa Fréttablaðið. Í síðasta mánuði fór lestur þess hjá fólki á aldrinum 18-49 ára niður í 40,1 prósent. Fyrir sex árum síðan lásu um 64 prósent allra í aldurshópnum Fréttablaðið. Lesturinn hefur því dregist saman um tæp 38 prósent á nokkrum árum.
Árið 2014 fór 35 prósent af öllu birtingarfé sem rann í gegnum Birtingarhúsið til dagblaða og tímarita, öðru nafni prentmiðla. Þar af fóru 32,4 prósent til dagblaða. Það sem af er ári hefur það hlutfall verið 22 prósent.
Fjórðungur af netbirtingum til erlendra miðla
Mesta aukningin er í auglýsingum á netinu. Það tekur nú til sín um 19 prósent af birtingafénu sem fer í gegnum Birtingarhúsið og í frétt fyrirtækisins segir að ef fram fer sem horfir muni hlutdeild netauglýsinga taka fram úr prentmiðlum fyrr en síðar.
Í frétt Birtingarhússins segir að sú hlutdeild sem dagblöð hafa misst í auglýsingatekjum hafi að mestu færst yfir til netmiðla. Þar hefur hlutverk íslenskra miðla verið í kringum 75 prósent en afgangurinn, um fjórðungur auglýsingatekna vegna netauglýsinga, fer til erlendra miðla á borð við Facebook, Youtube og Google.