Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga lauk á fyrri helming ársins fjármögnun að fjárhæð 7,3 milljónum evra, eða sem nemur um einum milljarði króna. Fjármögnunin fór fram með aukningu hlutafjár frá núverandi fjárfestum undir forystu Frumtaks og hollenska fjárfestingafélagsins Velocity Capital sem og lánsfé, að því er segir í tilkynningu.
Benedikt Orri Einarsson, fjármálastjóri Meniga (á meðfylgjandi mynd), segir í fréttatilkynningu að grunnreksturinn styrkist við fjármögnunina. „Meniga hefur vaxið ört frá stofnun fyrirtækisins árið 2009 en starfsmenn Meniga eru nú um 100 talsins. Flestir starfa á Íslandi en fyrirtækið er einnig með skrifstofur í London og Stokkhólmi. Fjármögnunin gefur Meniga tækifæri til að halda áfram þróun á hugbúnaði í tengslum við neyslutengd tilboð ásamt því að styrkja grunnrekstur félagsins og áframhaldandi sókn á erlenda markaði.“
Willem Willemstein eigandi og framkvæmdastjóri Velocity Capital hefur tekið sæti í stjórn Meniga í kjölfarið af fjármögnuninni.
Meniga er leiðandi á heimsvísu í þróun heimilisfjármálalausna fyrir banka og fjármálastofnanir sem notaðar eru í næstu kynslóð netbanka til að bæta þjónustu við viðskiptavini. Meðal viðskiptavina Meniga eru nokkrir stærstu banka heims en þeirra á meðal eru Santander, mBank, Intesa Sanpaolo og ING Direct. Þannig drífa hugbúnaðarlausnir Meniga áfram netbanka í um 20 löndum með yfir 35 milljónir virka notendur.
Fjármögnuninni er ætlað að efla enn frekar sókn fyrirtækisins á erlenda
markaði en auk áherslu á heimilisfjármálahugbúnað hefur Meniga meðal annars
þróað neyslutengt tilboðskerfi (e. Card Linked Offers).
„Tilboðskerfinu er ætlað að hjálpa einstaklingum og fjölskyldum að spara með sérsniðnum tilboðum ásamt því að hjálpa fyrirtækjum að nýta betur markaðsfé sitt með því að ná til réttra viðskiptavina,“ segir í tilkynningunni.
Íslenskum notendum Meniga stendur til boða að nýta sér slík tilboð, sem ganga undir nafninu Kjördæmi á Íslandi, og aðrar lausnir Meniga gjaldfrjálst á vef fyrirtækisins www.meniga.is eða í Meniga appinu fyrir iPhone and Android síma.
Um Meniga: Meniga er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem hefur starfsstöðvar í Reykjavík, London og Stokkhólmi. Félagið var stofnað 2009 og er í dag markaðsleiðandi á heimsvísu í þróun og sölu heimilisfjármálalausna fyrir banka og fjármálafyrirtæki. Lausnir félagsins eru nú aðgengilegar yfir 35 milljónum notendum í um 20 löndum. Meniga hefur hlotið ýmis alþjóðleg verðlaun fyrir nýsköpun og til að mynda bestu tæknilausnina árin 2011, 2013 og 2015 á Finovate Europe, sem er ein þekktasta og virtasta ráðstefnan um tækninýjungar í banka- og fjármálaþjónustu. Frekari upplýsingar má finna á www.meniga.is og www.meniga.com.
Um Frumtak: Frumtak er samlagssjóður í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex af stærstu lífeyrissjóðum landsins og þriggja banka. Frumtak fjárfestir í nýsköpunar-fyrirtækjum sem þykja vænleg til vaxtar og útrásar. Markmið Frumtaks er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Frekari upplýsingar má finna á www.frumtak.is.
Um Velocity Captital: Velocity Capital er hollenskur fjárfestingasjóður sem sérhæfir sig meðal annars í fjárfestingum í fyrirtækjum sem framleiða fjármálahugbúnað. Sjóðurinn er með fjárfestingar í Evrópu, Asíu, Bandaríkjunum og Afríku