Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að þingið geti hugsanlega setið fram í október ef þurfa þykir. Þetta kom fram í ræðu hans á Alþingi í dag. Stjórnarandstaðan gagnrýndi mjög lítinn framgang þingstarfa í þinginu, sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt endurskoðaðri starfsáætlun þingsins frá því í vor á því að ljúka eftir viku.
„Það hefur komið mér aðeins á óvart að heyra hérna til dæmis í fundarstjórn, heyrði það í þinginu í gær, aðeins þau sjónarmið sem komu fram hjá háttvirtum þingmanni um að hér sé þriggja vikna starfsáætlun og svo muni þinginu ljúka vegna þess að á fundi með formönnum flokkanna sem ég og fjármálaráðherra áttum í aðdraganda þingsins kynntum við þær hugmyndir um að fresta samkomudegi þingsins, halda áfram þingstörfum fram í september, hugsanlega út september og lengur ef þurfa þykir með þeirri niðurstöðu að kjósa í lok október. Þetta eru ekki nein ný tíðindi,“ sagði Sigurður Ingi.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tók í svipaðan streng og sagði að það hlyti að hafa verið öllum ljóst þegar breytingar á starfsáætlun hafi verið samþykktar í vor að það yrði með þeim fyrirvara að enn ætti eftir að koma í ljós hvenær boðað yrði til kosninga og hvernig þingstörf gengju. Síðar í umræðunni sagði hann að þeir Sigurður Ingi hefðu verið afskaplega skýrir með það á fundum með öllum flokkum að til stæði að breyta samkomudegi nýs þings. „Við höfum jafnframt verið skýrir með það að að öllu óbreyttu muni þurfa að fjölga þingdögum. Þetta tel ég að ætti ekki að koma neinum í opna skjöldu.“
Þessu voru stjórnarandstæðingar hins vegar ósammála. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, sagði engar forsendur hafa breyst frá því að starfsáætlun þingsins var samþykkt í vor. „Hér hefur verið unnið vel en á sama tíma gerist það núna í óundirbúnum fyrirspurnatíma að hæstvirtur forsætisráðherra, sem er forystumaður framkvæmdarvaldsins, lætur eins og starfsáætlun Alþingis sé einskis virði, sé ekki pappírsins virði. Hann kemur hingað inn og tilkynnir Alþingi það og forseta þar á meðal að til standi að funda hér einhverjum vikum saman eftir að starfsáætlun Alþingis er lokið. Þetta er ótækt.“
Brynhildur Pétursdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, sagði það koma verulega á óvart að heyra Sigurð Inga lýsa því yfir að þing myndi sitja jafnvel út september. „Við erum með starfsáætlun sem er samþykkt af forsætisnefnd og forseta. Ég veit ekki til hvers við erum með starfsáætlun ef við ætlum síðan ekki að virða hana.“
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði ljóst að meirihlutinn væri að þvæla málum fram yfir áætluð þinglok til að geta tafið kosningabaráttuna. „Þeir ætla að halda þinginu hérna eins lengi og eins nálægt kosningum og þeir geta.“
Líkt og fram kom í Kjarnanum í gær þurfti að fresta þremur atkvæðagreiðslum um frumvörp ríkisstjórnarinnar í gær vegna lélegrar mætingar þingmanna. Það var svo aftur tilfellið í dag og kom fram í ræðu Óttars Proppé, formanns Bjartrar framtíðar, að þrír stjórnarþingmenn hafi verið í þingsal í dag.