Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sækist eftir öðru sæti í prófkjöri flokksins sem fer fram í byrjun september. Því sækist hann eftir að leiða Sjálfstæðisflokkinn í öðru Reykjavíkurkjördæminu. Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er talin líkleg til að sækjast eftir fyrsta sætinu í Reykjavík og þar með leiða hitt kjördæmið. Guðlaugur Þór lenti í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokks fyrir þingkosningarnar 2013.
Hanna Birna Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson leiddu lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur í síðustu þingkosningum. Þau hafa bæði tilkynnt um að þau ætli sér að hætta í stjórnmálum og bjóða sig því ekki aftur fram í haust. Þá er Pétur H. Blöndal, sem sat í öðru sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, látinn. Guðlaugur Þór sat í þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í kosningunum 2013.
Guðlaugur Þór hefur setið á þingi frá 2003 og var einnig borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks frá 1998-2006. Hann var heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árin 2007-2009.