Viðræður um kaup hóps lífeyrissjóða á 87 prósent hlut Kaupþings í Arion banka hafa runnið út í sandinn. Þetta hefur gerst samhliða því að nýir stjórnendur hafa tekið við hjá Kaupþingi í kjölfar þess að nauðasamningur bankans var kláraður um síðustu áramót og eignarhaldsfélagið Kaupþing tók við eftirstandandi eignum hans. Engar viðræður eru í farvatninu. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Kaupþing þarf að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árslok 2018. Takist það ekki mun ríkissjóður leysa bankann til sín. Þetta var hluti af því samkomulagi sem kröfuhafar Kaupþings gerðu við ríkið þegar samið var um uppgjör á slitabúi bankans á síðasta ári. Forsvarsmenn Kaupþings vildu ekki ræða við Morgunblaðið um hvernig þeir hyggðust losa sig við eignarhlutinn innan þess tímafrests sem gefinn hefur verið.
DV greindi frá því í byrjun viku að hópur um 20 starfsmanna Kaupþings ætti von á samtals 1,5 milljarði króna í bónusgreiðslur ef sala á eignum félagsins gengi vel á næstu tæpu tveimur árum. Þær bónusgreiðslur ná ekki til æðstu stjórnenda Kaupþings og þykir líklegt að sérstakt bónuskerfi, með hærri greiðslum, verði sett upp fyrir þá. Langverðmætasta eign Kaupþings er hluturinn í Arion banka.
Bjarna fannst hugmyndin skrýtin
Greint var frá því í fréttum í nóvember í fyrra að stærstu lífeyrissjóðir landsins hafi hug á því að kaupa Arion banka af kröfuhöfum Kaupþings og að þeir hafi ráðið menn til að halda sérstaklega utan um það ferli. Það gerðist í kjölfar þess að fjármálafyrirtækin Virðing og Arctica Finance reyndu að setja saman hóp til að kaupa bankann, m.a. með aðkomu lífeyrissjóðanna. Þeir ákváðu frekar að sleppa milliliðnum og ráðast sjálfir beint í það verkefni að reyna að eignast bankann.
Stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður leiddu verkefnið. Öllum lífeyrissjóðum landsins var boðið að vera með.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gerði þessi fyrirhuguðu kaup að umtalsefni á á umræðufundi um eignarhald á atvinnufyrirtækjum, hlutverki lífeyrissjóða og áhrif á samkeppni sem haldnar voru á Hilton Reykjavik Nordica í maí. Hann sagði að staðan hafi verið þannig einn daginn að ólík verðbréfafyrirtæki hefðu verið að koma sér fyrir til að keppa um hlut í banka en svo hafi hann lesið einn daginn frétt um að lífeyrissjóðirnir ætluðu ekki að starfa með þeim heldur að taka sig saman og kaupa banka. Þá yrði þetta orðið dálítið skrýtið. Lífeyrissjóðirnir eru með um 45 prósent af skráðum hlutabréfum og eru svo farnir að tala sig saman um að kaupa fjármálafyrirtæki sem eru að þjónusta fyrirtækin sem þeir eru aðaleigendur að[...]Þetta slær mig mjög illa og auðvitað er ástæða til að staldra við.“