Í Morgunblaðinu í morgun var greint frá því að Alþingi hafi samþykkt að setja á fót þjóðaröryggisráð. Blaðið sagði að 40 þingmenn hefðu samþykkt frumvarpið en að tveir hafi setið hjá, þær Katrín Jakobsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmenn Vinstri grænna. Umrædd atkvæðagreiðsla, sem var á dagskrá þingsins á miðvikudag, fór hins vegar aldrei fram. Fresta þurfti atkvæðagreiðslunni um þjóðaröryggisráð, og tveimur öðrum atkvæðagreiðslum sem fara áttu fram í þinginu í gær, vegna lélegrar mætingar þingmanna. Því var þingfundur gærdagsins aðeins rúmur hálftími að lengd, og eini dagskrárliðurinn voru störf þingsins.
Frétt Morgunblaðsins um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar sem fór aldrei fram birtist einnig á vefmiðlinum mbl.is. Þar var sett inn athugasemd við fréttina í morgun þar sem segir: „Svo virðist sem þetta sé ekki rétt frétt þar sem þingfundi var frestað í gær vegna fjarveru þingmanna. Fréttin um þjóðaröryggisráðið var flutt úr Morgunblaðinu í morgun.“
Í atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu um frumvarpið, sem fór fram 17. ágúst síðastliðinn, féllu atkvæði hins vegar þannig að 40 samþykktu að hleypa málinu áfram í þriðju umferð en tveir þingmenn, ofangreindar þingkonur Vinstri grænna, sátu hjá.