Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins vill að haldið verði flokksþing fyrir kosningar þar sem forysta flokksins endurnýjar sitt umboð. „Mér hefur þótt það eðlilegt að halda flokksþing í aðdraganda kosninga,“ sagði Sigurður Ingi í kvöldfréttum á RÚV. Þegar hann var spurður að því hvort hann héldi að Sigmundur Davíð yrði endurkjörinn sagði hann: „Það verður bara að koma í ljós, það eru auðvitað flokksmenn sem velja forystu flokksins.“
Kjördæmisþing er haldið í Suðvesturkjördæmi nú í kvöld. Það gæti komið í ljós á þeim fundi hvort haldið verður flokksþing fyrir kosningar eða ekki. Tvö kjördæmisþing hafa nú þegar ályktað að þau vilji boða til flokksþings, og það þriðja þarf til að taka ákvörðunina.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er mættur á fundinn. Hann er þó ekki fulltrúi í kjördæminu, enda á hann ekki lögheimili þar þótt hann búi í Garðabæ. Lögheimili hans er í Norðausturkjördæmi, þar sem hann var fulltrúi á kjördæmisþingi um síðustu helgi. Miðað við lög Framsóknarflokksins hefur hann ekki atkvæðisrétt á fundinum.
Um síðustu helgi fóru fram kjördæmisþing í Norðvestur- Norðaustur- og Suðurkjördæmi. Bæði í Suður- og Norðvesturkjördæmi var samþykkt að flokksþingi skyldi flýtt og það haldið fyrir kosningar í vetur. Í kjördæmi formannsins Sigmundar Davíðs, Norðausturkjördæmi, var tillaga um að halda flokksþing fyrir kosningar naumlega felld. Greiða þurfti atkvæði tvisvar um tillöguna og mun Sigmundur Davíð hafa barist hart gegn tillögunni.
Jafnvel þótt kjördæmisþingið í kvöld álykti gegn því að flýta flokksþingi mun fara fram tvöfalt flokksþing í Reykjavíkurkjördæmunum á laugardag. Þá verður tillaga um að flýta flokksþingi borin undir fundarmenn þar.