Björt framtíð birti í gærkvöldi framboðslista sína fyrir öll kjördæmi landsins. Þrír núverandi þingmenn flokksins munu leiða lista, formaðurinn Óttarr Proppé í Suðvesturkjördæmi, Björt Ólafsdóttir í Reykjavíkurkjördæmi norður og Páll Valur Björnsson í Suðvesturkjördæmi. Þá mun Nichole Leigh Mosty leikskólastjóri leiða lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, G. Valdimar Valdemarsson framkvæmdastjóri verður í fyrsta sæti á lista Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi og Preben Pétursson mjólkurtæknifræðingur leiðir í Norðausturkjördæmi. Fjórir karlar sitja því í efstu sætum á lista flokksins en tvær konur. Hægt er að sjá framboðslista flokksins í heild hér.
Björt framtíð fékk 8,2 prósent í þingkosningunum 2013 eftir að hafa mælst með mun hærra fylgi í könnunum í aðdraganda þeirra. þremur mánuðum fyrir kosningarnar mældist það til að mynda um 19 prósent. Flokkurinn fékk því sex þingmenn kjörna í fyrsta sinn sem hann bauð fram. Þrír þingmenn flokksins hafa ákveðið að bjóða sig ekki aftur fram. Þeir eru Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi formaður og stofnandi Bjartrar framtíðar, Róbert Marshall og Brynhildur Pétursdóttir. Þá hefur Heiða Kristín Helgadóttir, sem stofnaði flokkinn með Guðmundi, hætt afskiptum af stjórnmálum á vettvangi Bjartrar framtíðar.
Fylgi Bjartrar framtíðar hefur mælst mjög lítið síðustu misserin. Í nýjustu kosningaspá Kjarnans mælist fylgi flokksins 3,9 prósent, sem myndi ekki duga honum til að komast inn á þing.