Umfjöllun um aflandsfélagaeign Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, og eiginkonu hans snérist bara um að fella forsætisráðherrann. Margir vildu ná sér niður á honum fyrir að hafa þvælst fyrir kröfuhöfum bankanna og leyst úr stórum málum sem aðrir stjórnmálamenn höfðu gefist upp á. Þetta segir Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs, í viðtali við Morgunblaðið í dag. Það fyrsta sem hún veitir eftir að Wintris-málið kom upp í mars.
Hún segir að Sigmundur Davíð hafi hringt strax í sig þegar hið fræga viðtal sem sænskur sjónvarpsmaður tók við hann í ráðherrabústaðnum 11. mars síðastliðinn var lokið. Hann hafi verið miður sín yfir að hafa verið beittur ósvífnum blekkingum. Hún hafi í kjölfarið ákveðið að skrifa stöðuuppfærsla á Facebook um aflandsfélagaeign sína. Forsætisráðherrahjónin fyrrverandi hafi hins vegar gert þau mistök að trúa því að fjölmiðlamennirnir sem stóðu að umfjölluninni væru að reyna að komast að kjarna og sannleika málsins.
Sigmundur vildi vaða í sjónvarpsmennina
Anna Sigurlaug gagnrýnir fjölmiðla harðlega í viðtalinu, segir þá hafa verið óheiðarlega og ekki tekið tillit til svara sem forsætisráðherrahjónin fyrrverandi hafi sent þeim í aðdraganda umfjöllunar Kastljóss og Reykjavík Media, sem sýnd var sunnudaginn 3. apríl og vakti heimsathygli. „Sigmundur vildi vaða strax í sjóvarpsmennina og óheiðarlega framgöngu þeirra en aðrir töldu ekki rétt að veita þeim slíka athygli. Best væri að leggja bara fram öll gögn og sýna að ávirðingar sjónvarpsmannanna hefðu verið rangar. Það var auðvitað mikið áfall þegar þátturinn var svo sýndur að sjá að það var ekki minnst á svörin frá okkur.
Þau virtust engu máli skipta og það þótti greinilega engin ástæða til að draga fram hið rétta í málinu. Það var fyrst og fremst áfall því það staðfesti það sem okkur var farið að gruna að þetta snerist alls ekki um að fá fram hið sanna í málinu. Þetta snerist bara um það að fella forsætisráðherrann. Það sáu auðvitað margir sem vildu ná sér niður á manninum sem hafði þvælst, svo eftir var tekið, fyrir kröfuhöfum bankanna og leyst úr stórum málum sem aðrir stjórnmálamenn höfðu gefist upp á að fást við. Miðað við það hversu ljótur leikur þetta var og hvernig þetta teygði sig út fyrir landsteinana þá kæmi mér ekki á óvart þó einhverjir úr hópi kröfuhafanna hafi ýtt undir þessa umfjöllun og séð sér verulegan hag í því að velta forsætisráðherra landsins úr sessi.“
Mikilvægt að Framsókn og Sigmundi vegni vel
Anna Sigurlaug segir við Morgunblaðið að það hafi verið þungbær ákvörðun þegar Sigmundur Davíð vék úr embætti forsætisráðherra. Hún hafi brotnað niður þegar það varð niðurstaðan. „Mér þótti mjög ósanngjarnt að maðurinn sem hafði staðið í lappirnar fyrir hönd þjóðarinnar í gríðarlega stórum málum og erfiðum og náð árangri sem vakið hefur athygli um allan heim, var látinn gjalda fyrir umfjöllun sem ekki stóðst nokkra skoðun.“
Hún ætlar þó að styðja Sigmund Davíð áfram í sinni stjórnmálabaráttu, en hann hefur lýst því yfir að hann ætli sér að leiða Framsóknarflokkinn áfram í komandi kosningum. Það sé mikilvægt að honum og Framsóknarflokknum vegni vel í kosningunum og að Sigmundur Davíð hafi áhyggjur af því að stór og mikilvæg mál verði ekki til lykta leidd nema að haldið verði rétt á þeim. „Í mínum huga verður hann að halda baráttunni áfram og ég er sannfærð um að margir eru mér sammála um það.“
Hættumerki í samfélagsmiðlum og netinu
Anna Sigurlaug segist sjá ákveðin hættumerki í íslensku samfélagi sem taka þurfi alvarlega.Það sé ofboðsleg harka og grimmd hlaupin í samfélagið á mörgum sviðum, sérstaklega í tengslum við samfélagsmiðla og netið. „Bak við tölvuskjáina er hægt að láta margt flakka en þetta teygir sig einnig inn í þingið og á fleiri staði. Þar ræðst samstarfsfólk til dæmis mjög harkalega og persónulega á hvert annað og þetta á sér birtingarmyndir víðar. Það er eins og að það sé gefið skotleyfi á það fólk sem býður sig fram og nánast gengið út frá því að þeir sem bjóði fram krafta sína í stjórnmálum hafi einhverjar annarlegar hvatir að baki.“