Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, munu leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Frá þessu var greint í dag. Lilja sóttist ein eftir því að leiða í Reykjavíkurkjördæmi suður og var því sjálfkjörin. Í Reykjavíkurkjördæmi norður sóttust Karl og Þorsteinn Sæmundsson, sem einnig er þingmaður Framsóknar, eftir leiðtogasætinu. Í kjöri milli þeirra hlaur Karl 57 prósent atkvæða en Þorsteinn 43 prósent.
Miklar breytingar verða á lista Framsóknar í Reykjavíkur. Sú sem leiddi flokkinn í Reykjavík suður í kosningunum í apríl 2013, Vigdís Hauksdóttir, ákvað að gefa ekki kost á sér í komandi kosningum. Sigrún Magnúsdóttir og Frosti Sigurjónsson leiddu flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður, en þau ætla bæði að hætta eftir núverandi þing.