„Ég hef aldrei, aldrei, kynnst viðlíka óheiðarleika, virðingarleysi og lygum af hálfu fjölmiðlamanna gagnvart viðmælendum eða starfsfólki eins og SVT og Jóhannes Kristjánsson sýndu af sér í þessu tilfelli. Satt að segja á ég erfitt með að finna annað eins dæmi í lífi mínu almennt um fólk sem hefur sýnt af sér hegðun sem kemst í hálfkvisti við þetta,“ skrifar Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, um samskipti sín við Jóhannes Kr. Kristjánsson og sænska ríkisútvarpið SVT.
Jóhannes Þór skrifar á vefsíðu sína um yfirlýsingu frá Reykjavík Media, Kastljósi og Uppdrag Granskning frá því á laugardag, þar sem fjölmiðlarnir höfnuðu því m.a. að þeim hafi verið afhentar ítarlegar upplýsingar um eignarhaldsfélagið Wintris eins og Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs, hélt fram í viðtali við Morgunblaðið sama dag. Anna Sigurlaug sagði að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra upplýsinga sem afhentar hefðu verið við vinnslu þáttar Kastljóss um Panamaskjölin, þar á meðal félagið Wintris.
Jóhannes Þór segir rétt að fara yfir nokkra hluti varðandi samskipti sín við þetta fjölmiðlafólk, þó hann hafi ekki kosið að tjá sig mikið um það eða annað varðandi málið hingað til.
„Í byrjun mars fékk ég símtöl og tölvupósta frá Jóhannesi Kristjánssyni þar sem óskað var eftir viðtali við forsætisráðherra fyrir sænska ríkissjónvarpið. Jóhannes kynnti sig sem milligönguaðila og það staðfestu Svíarnir. Það var lygi,“ skrifar Jóhannes Þór. Í kjölfarið hafi hann fengið yfirlit frá SVT um það hvað ræða ætti í viðtalinu og það hefði allt saman verið lygi líka. „Það er skemmst frá því að segja að í tæpar tvær vikur var allt sem kom fram í símtölum, tölvupóstum og persónulegum samtölum við mig af hálfu þessara manna lygi.“
Jóhannes segist vissulega hafa hringt í ritstjóra þáttarins Uppdrag Granskning hjá SVT, Nils Hanson, og komið á framfæri megnri óánægju sinni með vinnubrögðin. „Ég var enda reiður og lái mér hver sem vill.“
Hann hafi hins vegar ekki farið þess á leit að viðtalið við Sigmund Davíð, þar sem rætt var um Wintris, yrði ekki sýnt. Hann hafi vitað að hann hefði enga stjórn á því „og að fátt myndi þessu fólki líklega þykja meira djúsí.“ Hann hafi vegar hringt til að fá skýringar á framkomu sænska ríkissjónvarpsins gagnvart forsætisráðherra og honum sjálfum.
Yfirlit á bloggsíðu og upplýsingar frá KPMG
Fjölmiðlarnir sem unnu að Panamaskjölunum hafa oft tekið fram að Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug hafi ekki svarað ítarlegum spurningalista sem sendur hafi verið. Ekki hafi fengist svör við þeim þó þær hafi verið ítrekaðar, en Jóhannes Þór hafi vísað í bloggfærslu Sigmundar og yfirlýsingu frá KPMG.
Í færslu Jóhannesar Þórs kemur fram að þetta séu upplýsingarnar sem talað er um að ekki hafi verið tekið tillit til. Jóhannes hafi einnig sjálfur beðið um að sjá gögnin sem fjölmiðlarnir höfðu undir höndum en því hafi verið neitað. Þetta segir hann að hafi falið í sér mikinn aðstöðumun, þar sem þurft hafi að „afla þessara gagna á tímafrekan hátt frá mörgum aðilum erlendis.“ Hann gagnrýnir hvernig farið hafi verið með þessar upplýsingar í Kastljósi.
Í yfirlýsingunni frá Reykjavík Media, Kastljósi og Uppdrag Granskning segir hins vegar þetta: „Í þættinum var hins vegar endurtekið vísað í yfirlýsingar þeirra beggja og bloggfærslur, sem birtar voru í aðdraganda þáttarins. Forsætisráðherra var að auki ítrekað boðið í viðtal um aðkomu sína að félaginu, sem hann þáði ekki. Rétt eins og áður hefur verið bent á í yfirlýsingu undirritaðra vegna ummæla Sigmundar Davíðs frá því í júní síðastliðnum.“
Segist vilja læra af málinu
„Ég get sagt það persónulega að traust mitt á þeim sem fóru fram svo óheiðarlega í samskiptum við mig, eins og að ofan er lýst, er ekki mikið. Ég á þess vegna svolítið bágt með að gleypa þetta með geislabauginn og vængina. Á sama hátt veit ég að ég hef ekki gert allt rétt og mun gera mitt besta til að vinna traust fólks sem ég vinn með og hef samskipti við í mínu starfi, jafnt fjölmiðlafólks og annarra,“ skrifar Jóhannes Þór.
Hann sé ekki óskeikull og geri mistök sem hann reyni að læra af, biðjast afsökunar á og bæta sig. „En fólk sem vinnur við fjölmiðla er það ekki heldur.“