Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, leggur til að lagður verði 90-98 prósent skattur á bónusgreiðslur hið fyrsta. Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, lagði einnig til háan skatt á slíkar. Þetta kom fram í umræðum um bónusgreiðslur á Alþingi í dag.
Þar sagði Þorsteinn að skatturinn ætti að leggjast á bónusgreiðslurnar til þess að „við getum tryggt að þessi framlög slitabúanna sem eru að koma til Íslands lendi ekki í fjögurra til fimm manna hóp heldur hjá þjóðinni allri.“
Ástæða umræðunnar eru fréttir í DV undanfarna daga um áætlanir eignarhaldsfélaga sem tóku við eignum slitabúa Kaupþings og gamla Landsbankans um að greiða starfsmönnum sínum himinháar bónusgreiðslur fyrir að koma eignunum í verð.
Fjórir má hundruð milljóna hver
Í DV í dag var greint frá því að fjórir stjórnendur LBI, eignarhaldsfélags utan um eignir gamla Landsbankans, geti fengið samtals mörg hundruð milljónir króna í bónusgreiðslur hver um sig á komandi árum ef vel gengur að koma eignum félagsins í verð. Á meðal fjórmenninganna eru Kolbeinn Árnason, sem hætti sem framkvæmdastjóri hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) fyrr á þessu ári og settist í stjórn LBI. Þar er líka Ársæll Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LBI. Hinir tveir mennirnir sem fá slíka bónusa eru Richard Katz, stjórnarformaður LBI, og Christian Anders Digemose, danskur ráðgjafi og lögmaður sem starfað hefur fyrir kröfuhafa föllnu íslensku bankanna á undanförnum árum.
Gangi tilteknar forsendur eftir sem bónuskerfið grundvallist á gætu heildarbónusgreiðslur til þessara fjögurra æðstu stjórnenda félagsins hæglega hlaupið samtals á milljörðum króna.
1,5 milljarður hjá Kaupþingi
Greint var frá því í DV í síðustu viku að um tuttugu starfsmenn eignarhaldsfélagsins Kaupþings, sem tók við hlutverki slitabús Kaupþings að loknum nauðasamningum bankans í lok árs í fyrra, geta fengið samtals tæplega 1.500 milljónir króna í bónusgreiðslur ef markmið um hámörkum á virði óseldra eigna félagsins næst. Bónusgreiðslurnar eiga að greiðast út ekki síðar en í lok apríl 2018. Langstærsta óselda eign Kaupþings er 87 prósent hlutur í Arion banka, viðskiptabanka sem starfar að mestu á íslenskum markaði og var endurreistur af íslenska ríkinu með íslenskum innstæðum.
Bónusgreiðslurnar sem stjórnendur LBI geta fengið ef vel gengur að selja eignir félagsins eru mun hærri en þær sem starfsmenn Kaupþings eiga von á að fá.