Á fyrsta hluthafahundi Glitnis HoldCo, eignarhaldsfélags utan um eftirstandandi eignir slitabús Glitnis, var samþykkt tillaga um bónusgreiðslur til starfsmanna félagsins ef vel gangi að koma eignum þess í verð. Um er að ræða álíka háar upphæðir og starfsmenn Eignarhaldsfélagsins Kaupþings eiga von á að fá fyrir sömu verk, en þeir eiga von á allt að 1,5 milljarða króna greiðslu samtals. Þrír stjórnarmenn Glitnis eiga hver um sig að fá 25 prósent þeirra bónusgreiðslna sem greiddar verða út og almennir starfsmenn, sem eru ekki fleiri en tíu, 25 prósent hlut. Frá þessu er greint i Morgunblaðinu í dag.
Því hefur verið samþykkt kaupaaukaáætlun fyrir eignarhaldsfélög allra föllnu bankanna því LBI, sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans, ætlar að greiða stjórnarmönnum og lykilstarfsmönnum sínum hundruð milljóna króna hver þegar eignum félagsins hefur verið komið í verð.
Hægt að skattleggja greiðslurnar sérstaklega
Á Alþingi í gær var kallað eftir því að þessar bónusgreiðslur yrðu skattlagðar sérstaklega og þær gagnrýndar harðlega. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vildi að þingið legði 90-98 prósent skatt á þær strax.
Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Indriða Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóra. Hann segir að það sé hægt að festa sérákvæði um svona bónusgreiðslur í skattalögum. „Svona ofurgreiðslur eru ekki nýjar af nálinni og í eftirleik hrunsins voru viðraðar og sums staðar virkjaðar skattareglur sem taka á þessu að einhverju leyti, það er að segja að skattleggja svona aukagreiðslur með ákveðnum hætti. Tæknilega er hægt að skilgreina sérstakar launagreiðslur sem eru umfram reglulega launasamninga og hugsanlega leggja á þær sérstakan skatt, svona einskiptisgreiðslur. Ef svona greiðslur fara yfir ákveðin mörk, til dæmis umfram 25 prósent af árslaunum viðkomandi, er hægt að setja einhver ákvæði.“