Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, mun sækjast eftir fyrsta sæti í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi fyrir kosningarnar í haust. Höskuldur greinir frá þessu í bréfi sem hann sendi flokksmönnum, og Vikudagur á Akureyri greinir frá.
Höskuldur mun því berjast við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sem einnig vill fyrsta sætið fyrir norðan.
Í bréfi Höskuldar kemur einnig fram að hann vonist til þess að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins og forsætisráðherra, gefi kost á sér til formennsku í flokknum á flokksþingi í haust. „Að mínu mati er hann ótvírætt best til þess fallinn að leiða Framsóknarflokkinn í komandi þingkosningum,“ segir Höskuldur.
Höskuldur bauð sig einnig fram í fyrsta sæti í Norðausturkjördæmi í síðustu kosningum en laut í lægra haldi fyrir Sigmundi Davíð. Hann tapaði einnig formannskosningum gegn Sigmundi árið 2009.