Hanna Katrín Friðriksson, framkvæmdarstjóri heilbrigðissviðs Icepharma, ætlar að bjóða sig fram fyrir Viðreisn í komandi kosningum. Hún ætlar að sækjast eftir því að leiða annað Reykjavíkurkjördæmið. Þetta staðfestir hún í samtali við Eyjuna.
Hanna Katrín hefur áður tengst Sjálfstæðisflokknum og var meðal annars aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem þá var heilbrigðisráðherra. hún er með MBA gráðu í stefnumótun og breytingastjórnun frá Graduate School of Management, University of California og með BA gráðu í heimspeki og hagfræði frá HÍ. Maki hennar er Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Novator.
Nú er komin nokkuð góð mynd á hverjir skipi efstu sætin á framboðslista Viðreisnar í komandi kosningum. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, greindi frá því í morgun að hann muni verða í fyrsta sæti á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi. Áður hafði verið búist við því að hann myndi bjóða fram í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.
Þrjú stór nöfn hafa þegar boðað að þau ætli fram fyrir Viðreisn í Reykjavík. Þau eru Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur. Líklegt er talið að Þorsteinn og Hanna Katrín leiði sitt hvort Reykjavíkurkjördæmið.
Fyrir tveimur dögum var greint frá því að Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur frá Ísafirði, muni leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Jóna Sólveig Elínardóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur tilkynnt um framboð og þykir líklegust til að vera í efsta sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Enn á eftir að greina frá því hverjir leiða lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er sterklega orðuð við framboð.