Allur þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram frumvarp um að takmarka kaupaukagreiðslur félaga sem hafa eða hafa haft leyfi til reksturs fjármálafyrirtækis en hafa verið tekin til sitameðferðar. Sömuleiðis á bannið að ná yfir eignir félaga sem fara með eignir sem eru eða voru í eigu slíkra félaga. Ástæðan er áætlum eignarhaldsfélaga utan um eftirstandandi eignir Kaupþings, Glitnis og gamla Landsbankans að greiða starfsfólki sínu milljarða króna í bónusa fyrir að koma eignunum í verð. Í stuttri greinargerð sem fylgir með frumvarpinu segir m.a.: „ Í ljósi sögunnar, eðli og uppruna þeirra eigna sem umrædd félög höndla með er hér lagt til að skilgreining laga um fjármálafyrirtæki á eignarhaldsfélagi á fjármálasviði verði rýmkuð þannig að félög sem hafa eða hafa haft leyfi til reksturs fjármálafyrirtækis en tekin hafa verið til slitameðferðar og félög sem fara með eignir sem eru eða voru í eigu slíkra félaga falli þar undir. Engin rök standa til þess að undanskilja umrædd félög þeim reglum sem gilda um banka og eigendur þeirra.“
Þegar eru í gildi lög sem takmarka bónusgreiðslur starfsmanna fjármálafyrirtækja við 25 prósent af árslaunum þeirra. Þau lög ná hins vegar ekki yfir eignarhaldsfélög í eignaumsýslu, líkt og þau Kaupþing, GlitnirHoldco og LBI eru. Frumvarp Samfylkingarinnar gengur út á að færa þessi félög undir lögin þannig að þau geti ekki greitt starfsfólki sínu þá bónusa sem stjórnir þeirra hafa þegar samþykkt að greiða þeim.