Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í þingkosningunum. Framboðslistinn var samþykktur á kjördæmisþingi Framsóknar í dag en þingið fer fram á Hótel Bifröst um helgina.
Annað sæti listans skipar Elsa Lára Arnardóttir þingmaður, Sigurður Páll Jónsson útgerðarmaður er í því þriðja og Lilja Sigurðardóttir sjávarútvegsfræðingur er í því fjórða.
Í tilkynningu þar sem greint er frá listanum kemur fram að af þeim 16 einstaklingum sem skipa listann séu níu karlar og sjö konur. Fléttulisti er í fyrstu níu sætunum og meðalaldur frambjóðendanna 16 er 42 ár. Yngsti frambjóðandinn er 19 ára en sá elsti 75 ára.