Píratar hafa hrint af stað söfnun fyrir kosningabaráttu sína í samstarfi við hópfjármögnunarsíðuna Karolinafund. Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnmálaflokkur á Íslandi fjármagnar kosningabaráttu sína með þessum hætti. Þegar þetta er skrifað hafa safnast 175.500 krónur í kosningasjóð flokksins. Það fé hefur komið fram 36 einstaklingum og einu fyrirtæki eða samtökum. Framlag frá einstaklingi eða lögaðila má að hámarki vera 400.000kr samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálaflokka.
Í tilkynningu frá Pírötum vegna þessa segir að um sögulegan atburð sé að ræða. „Píratar ákváðu að velja þessa leið þar sem að flokkurinn vill sækja styrk sinn til þjóðarinnar og vera óháður sérhagsmunaöflum, nú sem endranær. Við óskum því eftir stuðningi þjóðarinnar til þess að fjármagna kosningabaráttu okkar til þess að við getum komið skilaboðum okkar skýrt á framfæri og breytt samfélaginu okkar til hins betra.“
Samkvæmt nýjustu Kosningaspá Kjarnans, sem gerð var 2. september, eru Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar stærstu stjórnmálaöfl á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur nú meira fylgis en Píratar sem hafa átt meira fylgi að fagna undanfarna mánuði og verið vinsælasta stjórnmálaaflið á Íslandi í könnunum. Sjálfstæðisflokkur mælist með 25,6 prósent og Píratar með 24,9 prósent. Munurinn á fylgi þessara framboða er innan vikmarka.