Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra segir að hann hafi aldrei á stjórnmálaferli sínum fundið fyrir eins miklum stuðningi og síðustu mánuði. Þetta kom fram í viðtali við hann á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
„Ég hef ekki, frá því ég byrjaði í stjórnmálum, fundið eins mikinn stuðning og velvild frá almenningi eins og síðustu misseri. Á meðan á öllu þessu gekk síðasta vor, þá vissulega vissu margir ekki hvernig ætti að taka því, en ég til dæmis fer ekki út í búð núna eða einhvers staðar á mannamót öðruvísi en að það komi til mín fólk til að ræða þessi mál og alltaf á jákvæðum nótum; til þess að segja mér að núna þegar rykið sé sest þá sjái menn hverskonar aðför þetta hafi verið og alltaf hvatning: ekki gefast upp. Við treystum á að þú haldir áfram. Þú verður að halda áfram þeirri baráttu sem þú hefur leitt. Oft fengið að heyra: ef þú lofar mér að þú heldur áfram þá skal ég að kjósa Framsóknarflokkinn í fyrsta skipti,“ sagði Sigmundur Davíð meðal annars.
Hann ítrekaði jafnframt að hann teldi að hann hefði sterka stöðu í Framsóknarflokknum, þrátt fyrir að þrír þingmenn bjóði sig fram í fyrsta sæti í Norðausturkjördæmi gegn honum og að allar líkur séu á því að hann fái mótframboð í formannskjörinu í flokknum.