Ríkislögreglustjóra hefur ekki verið tilkynnt um innbrot í tölvu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrrverandi forsætisráðherra. Þetta kemur fram í svari ríkislögreglustjóra til Vísis.
Sigmundur Davíð hélt því fram í ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um helgina að brotist hafi verið inn í tölvu hans, og hann hafi látið skoða það. Brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess heyrir undir greiningardeild ríkislögreglustjóra. Ekki hefur verið tilkynnt um neitt innbrot í tölvu Sigmundar Davíðs, samkvæmt svari þaðan.
Sigmundur Davíð dró þó í land við eftirgrennslan Kjarnans um helgina, og sagði þá að reynt hefði verið að brjótast inn í tölvu hans.
Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sagðist í samtali við Kjarnann í morgun ekki þekkja málið. Mál af þessu tagi væru á forræði rekstrarfélags stjórnarráðsins og ríkislögreglustjóra og hann vísaði á rekstrarfélagið.
Rekstrarfélag stjórnarráðsins hefur ekki svarað fyrirspurn Kjarnans um málið, en þar var meðal annars spurt hvort rétt væri að brotist hafi verið inn í tölvu Sigmundar Davíðs, hver viðbrögðin við innbroti í tölvu forsætisráðherra væru og hvort lögreglu hefði verið gert viðvart um málið.