Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að hann hafi tekið þá ákvörðun að „stíga til hliðar um tíma á meðan hlutirnir væru að skýrast“ þegar hann sagði af sér embætti forsætisráðherra þann 5. apríl síðastliðinn. Þetta kom fram í viðtali við Sigmund Davíð í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær.
Sigmundur margítrekaði í viðtalinu að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins og núverandi forsætisráðherra, hafi lofað að fara ekki gegn honum í formannsembættið í flokknum. „Þegar ég á sínum tíma ákvað að það væri rétt að stíga til hliðar um tíma, á meðan að hlutirnir væru að skýrast, og ræddi við Sigurð Inga og bað hann um það að fara í þetta hlutverk fyrir mig á meðan – að verða forsætisráðherra – þá sagði ég eingöngu, ég sagðist treysta honum fyrir þessu og bæði ekki um annað en að hann leyfði mér að fylgjast með gangi mála og svo vissi ég, sem hann hefði svo oft sagt við mig áður, að hann myndi aldrei nýta þá stöðu til að fara gegn mér,“ sagði Sigmundur. Hann sagði að eftir þetta samtal hafi þeir Sigurður Ingi tekist í hendur og fallist í faðma.
Sigmundur Davíð sagði einnig að hann vonaðist til þess að sem flestir yrðu vinir á flokksþingi flokksins í byrjun október. „Það var synd að við skildum ekki ná að klára kjörtímabilið og klára síðustu fjárlögin, sem maður batt auðvitað mjög miklar vonir við, en þá skiptir þeim mun meira máli að flokkurinn nái að stilla saman strengi og koma með öfluga stefnu inn í kosningarnar.“
Segir sannreynt að brotist hafi verið í tölvuna
Sigmundur Davíð var einnig spurður um þá fullyrðingu sína að brotist hafi verið inn í tölvu hans. Hann var spurður að því hvort það hafi verið sannreynt og svaraði „Já. Mér barst póstur sem var látinn líta út fyrir að vera frá manni sem ég þekki, sem hafði svo ekki sent póstinn og í ljós kom að viðhengið sem í honum var var svona njósnaforrit til að fara inn í tölvu. Þetta kom í ljós eftir að ég hafði látið tæknimenn í ráðuneytinu eða rekstrarfélagi stjórnarráðsins til að skoða tölvuna en það var ekkert auðvitað hægt að átta sig á því hversu miklum upplýsingum viðkomandi hefði náð. Þeir sögðu mér bara að það eina örugga fyrst að þetta væri svona væri að skipta um harða diskinn í tölvunni.“
Þá var hann spurður á ný hvort þetta hafi verið staðfest af „manni í ráðuneytinu“ og svaraði aftur játandi. „Þessir tæknimenn sem skoðuðu þetta fyrir mig sögðu að þetta væri einhvers konar vírus eða forrit af þessari gerð, það var hins vegar ekki hægt að sjá hversu mikið það hefði virkað.“
Þá var hann spurður hvort hann hefði ekki tilkynnt málið til lögreglu. „Nei ég gerði það nú ekki enda sko er maður ýmsu vanur úr þessu í pólitíkinni og hafði fengið þau ráð, ekki bara út af þessum stóru málum sem við var að eiga á þessum tíma heldur bara almennt að við ættum að gera ráð fyrir því ráðherrar og jafnvel þingmenn almennt, að allt sem við settum í tölvupóst væri lesið.“
Rekstrarfélagið segir engin ummerki um innbrot
Framkvæmdastjóri Rekstrarfélags stjórnarráðsins staðfesti það hins vegar í svari við fyrirspurn Kjarnans í gær að engin staðfest ummerki um innbrot hefðu fundist í tölvu Sigmundar Davíðs við skoðun. Rekstrarfélagið hefur umsjón með staðarneti Stjórnarráðsins og undir það fellur tölva forsætisráðherra. Þann 1.apríl 2016 barst félaginu beiðni frá forsætisráðherra um að skoða tölvu ráðherra vegna rökstudds gruns hans um mögulegt innbrot. Við ítarlega leit fundust ekki staðfest ummerki að innbrot hafi átt sér stað,“ segir í svari Guðmundar Halldórs Kjærnested, framkvæmdastjóra rekstrarfélagsins, við fyrirspurn Kjarnans.
Fyrr í gær hafði Vísir greint frá því að innbrot í tölvu forsætisráðherra hefði ekki verið tilkynnt til ríkislögreglustjóra, sem fer með brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess.