Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra íhugar að bjóða sig fram til varaformanns Framsóknarflokksins. Hún styður núverandi forystu flokksins og flokksformanninn Sigmund Davíð Gunnnlaugsson til áframhaldandi setu en segist hafa fengið áskoranir um að bjóða sig fram. Þetta kom fram í viðtali við hana í Bítinu í morgun.
Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, greindi frá því á miðstjórnarfundi flokksins um helgina að hann myndi ekki sækjast eftir því að vera varaformaður flokksins áfram vegna samskiptaerfiðleika í forystu hans. Þar átti hann við samskipti sín við Sigmund Davíð. Margir hafa skorað á Sigurður Inga að bjóða sig fram til formanns gegn Sigmundi Davíð og hann hefur neitað að svara því hvort hann verði við þeim áskorunum í viðtölum á liðnum dögum. Áður hafði hann sagt að mótframboð gegn Sigmundi Davíð kæmi ekki til greina.
Lilja er annar ráðherra Framsóknarflokksins sem hefur opnað á mögulegt varaformannsframboð í dag, en Gunnar Bragi Sveinsson gerði slíkt hið sama í viðtali við Fréttablaðið sem birtist í morgun. Bæði Gunnar Bragi og Lilja styðja Sigmund Davíð til að gegna formennsku í Framsóknarflokknum áfram og teljast til hans helstu stuðningsmanna. Lilja hefur unnið náið með Sigmundi Davíð að stórum málum og var tímabundið verkefnastjóri í forsætisráðuneyti hans. Hún kom inn í ríkisstjórn í apríl sem utanþings ráðherra eftir að Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra í kjölfar Wintris-málsins.
Ljóst er að stuðningur við Sigurð Inga sem næsta formann flokksins er sífellt að aukast og í gær steig Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og enn mikill áhrifamaður innan hans, fram og hvatti Sigmund Davíð til að stíga til hliðar. Að mati Guðna eru það hagsmunir flokksins að Sigurður Ingi leiði hann inn í komandi kosningar, sem verða 29. október næstkomandi.
Kosið verður um forystu Framsóknarflokksins á flokksþingi sem fram fer í byrjun október. Einn hefur þegar tilkynnt að hann sækist eftir formennsku utan sitjandi formanns. Það er Sveinbjörn Eyjólfsson, forstöðumaður Nautastöðvar Bændasamtakanna. Hann var aðstoðarmaður Guðna Ágústssonar þegar hnan var landbúnaðarráðherra á árum áður.