Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, skilur ekki að sumir æsi sig yfir nýsamþykktum búvörusamningum. Í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu Sigmundar Davíðs segir að um sé að ræða 13 milljarða króna á ári í neytendastyrki sem skili sér að miklu leyti aftur til ríkisins, lækki verð á innlendri matvöru, viðhaldi undirstöðu byggðar og ferðaþjónustu um allt land, skapi þúsundir starfa, trggi nýtingu auðlinda og framleiðslu heilnæmra og góðra matvæla og spari 40-50 milljarða króna á gjaldeyri á ári. „Ekki skammast menn yfir kjarasamningum við aðrar stéttir og þó hafa bændur ekki fengið jafn miklar kjarabætur og aðrar stéttir. Það er helst það sem þarf að bæta“, segir Sigmundur.
Búvörusamningarnir voru samþykktir á þingi í gær. 19 þingmenn greiddu atkvæði með þeim en sjö sögðu nei. Alls sátu 16 þingmenn hjá, sjö voru með skráða fjarvist og 14 voru fjarverandi án skýringar. Einn þeirra sem var fjarverandi án skýringar var Sigmundur Davíð.
Þeir þingmenn sem greiddu atkvæði með samningnum eru allir frá Framsóknarflokki (12 talsins) og Sjálfstæðisflokki (sjö talsins). Einn þeirra er Vilhjálmur Bjarnason, sem sagði í febrúar að hann gæti ekki stutt samninganna eins og þeir voru þá.
Tíu ára samningur upp á 132 milljarða króna styrki
Líkt og kom fram í fréttaskýringu á Kjarnanum fyrr í dag eru samningarnir til tíu ára. Greiðslur úr ríkissjóði vegna samningsins nema 132 milljörðum króna á samningstímanum, eða að meðaltali 13,2 milljarðar króna á ári. Auk þess eru samningarnir tvöfalt verðtryggðir. Þ.e. þeir taka árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga og eru „leiðréttir“ ef þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs verður önnur en verðlagsforsendur fjárlaga á árinu.
Í samningunum er stefnt að því að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt verði lagt niður. Hins vegar hefur verið ákveðið að halda núverandi stöðu óbreyttri um einhvern tíma og setja ákvörðun um afnám kvótakerfisins í atkvæðagreiðslu meðal bænda árið 2019.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann skýrslu um mjólkurframleiðslukerfið á Íslandi, sem fest er í sessi í búvörusamningunum, í fyrra. Niðurstaða hennar var sú að íslenskir neytendur hafi þurft að borga átta milljörðum krónum meira fyrir framleiðslu á mjólk innanlands heldur en ef hún væri flutt inn á árunum 2011-2013. Niðurstaða skýrslunnar var mjög skýr: Íslenska kerfið er meingallað og afar kostnaðarsamt fyrir ríkið og neytendur.