Fimm nefndarmenn í fjárlaganefnd styðja gerð skýrslu Vigdísar Hauksdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um það sem þau kalla „Einkavæðing bankanna hin síðari“. Einn þingmaður stjórnarflokkanna sem situr í fjárlaganefnd hefur ekki lýst yfir stuðningi við skýrslugerðina og vill fá að kynna sér málið betur. Það er Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Aðrir nefndarmenn stjórnarflokkanna en Vigdís og Guðlaugur Þór komu ekki að gerð skýrslunnar eða vinnu við hana með beinum hætti. Frá þessu er greint á mbl.is.
Þar segir að Ásmundur Einar Daðason, Páll Jóhann Pálsson og Haraldur Benediktsson styðji gerð skýrslunnar auk Vigdísar og Guðlaugs Þórs. Því styðji fimm af níu meðlimum fjárlaganefndar gerð skýrslunnar. Haraldur segir að aðrir nefndarmenn hafi verið „ágætlega upplýst um það hvað þau voru að gera þó við höfum ekki tekið beina þátt í vinnunni.“
Í tölvupósti sem Vigdís ætlaði að senda á Pál Jóhann, en sendi þess í stað á Jóhann Pál Jóhannsson, blaðamann Stundarinnar, í fyrradag kemur skýrt fram að meirihluti fjárlaganefndar hafi fengið skýrsluna senda á sunnudag, degi áður en hún var kynnt fjölmiðlum. Minnihlutinn hafði ekki fengið að sjá skýrsluna á aþeim tímapunkti. Í tölvupóstinum segir að til stæði að taka málið úr fjárlaganefnd í gær, miðvikudag, og að þau ætluðu að gera „hana að þingskjali með nöfnum okkar í meirihlutanum á.“
Skýrslan var ekki afgreidd úr fjárlaganefnd í gær þar sem minnihluti hennar neitaði að taka hana til efnislegrar umræðu fyrr en að spurningum um gerð hennar hafði verið svarað. Á meðal þess sem minnihlutinn vildi fá að vita var hver hefði skrifað skýrsluna og hverjir hefðu komið að gerð hennar. Á kynningarfundi með fjölmiðlum á mánudag sagði Vigdís að kostnaður við skýrsluna hefði verið 90 þúsund krónur og að hún og Guðlaugur Þór hefðu greitt hann úr eigin vasa. Það er einsdæmi í íslenskri þingsögu að nefndarmenn greiði fyrir kostnað vegna skýrslugerðar sem er sögð vera gerð í nafni meirihluta þingnefndar.
Ásakanir um friðþægingu gagnvart kröfuhöfum
Skýrslan var kynnt í mánudag. Hún er í öllum meginatriðum endurtekning á þeim ásökunum sem Víglundur Þorsteinsson hefur lagt fram þrívegis á undanförnum árum. Þeim ásökunum hefur verið hafnað af þeim einstaklingum sem þær beinast að, þeim stofnunum sem komu að málinu og í áliti sem unnið var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan.
Samkvæmt ásökununum ákvað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, og sérstaklega fjármálaráðuneytið undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar, í samstarfi við embættismenn og Seðlabanka Íslands, að hefja aðför gegn neyðarlögunum í febrúar 2009 með það að markmiði að færa kröfuhöfum föllnu bankanna betri endurheimtir. Í þessari aðför var ákveðið að hundsa þau drög að stofnefnahagsreikningum nýju bankanna þriggja sem birt voru á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins (FME) 14. nóvember 2008. Í skýrslunni er síðan reiknað út að ríkissjóður hafi tekið á sig 296 milljarða króna í áhættu í þágu kröfuhafa með þessum aðgerðum.
Í fréttatilkynningu segir að skýrslan taki „af allan vafa um áhættu skattgreiðenda sem átti sér stað við afhendingu bankanna til kröfuhafa.[...]Ekki verður önnur ályktun dregin en að samningagerðin afi að stórum hluta gengið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhald á bönkunum.“
Steingrímur J. Sigfússon, sem er aðalskotmark skýrslunnar, hefur sagt að vinnubrögðin og ásetningurinn á bak við hana dæmi sig algjörlega sjálf. „Og þetta sem núna er að koma í ljós náttúrlega í fyrsta lagi sannar það að vinnubrögðin voru forkastanleg. En það sem er öllu ónotalegra er einhvern veginn ásetningurinn sem greinilega á bakvið liggur, að reyna að vega að mönnum næstum því að segja úr launsátri," sagði Steingrímur við RÚV í gær.
Kjarninn fjallaði ítarlega um skýrsluna í fréttaskýringu á þriðjudag.